Innlent

Kosningu í Flatey lokið með 100% kjörsókn

Sveinn Arnarsson skrifar
Starfsmenn Sýslumannsins á Vestfjörðum hafa þrisvar sinnum sett upp kjördeild í Flatey á Breiðafirði fyrir kosningar.
Starfsmenn Sýslumannsins á Vestfjörðum hafa þrisvar sinnum sett upp kjördeild í Flatey á Breiðafirði fyrir kosningar. vísir/anton brink

Kjördeild í Flatey á Breiðafirði hefur verið lokað fyrir alþingiskosningarnar sem haldnar verða næstkomandi laugardag. Fulltrúi Sýslumannsins á Vestfjörðum fór þangað á fimmtudaginn var og setti upp kjördeild í Bryggjubúðinni í eynni.

Sex voru á kjörskrá að þessu sinni og var kjörsókn 100 prósent. Er þetta í þriðja skiptið sem Sýslumaðurinn á Vestfjörðum setur upp kjördeild í eynni fyrir kosningar og hefur mælst afar vel fyrir hjá íbúum eyjarinnar að geta kosið í heimabyggð.

Utanumhald kosninga í Flatey á Breiðafirði heyrir undir Sýslumanninn á Vestfjörðum og því nokkuð langt ferðalag fyrir fulltrúa sýslumanns frá Patreksfirði til Flateyjar.

„Við lögðum af stað frá Patreksfirði rúmlega níu á fimmtudagsmorgun og keyrðum alla leið í Stykkishólm. Þaðan fórum við með Baldri út í Flatey,“ segir Bergrún Halldórsdóttir, starfsmaður Sýslumannsins á Patreksfirði.

„Þegar við komum svo inn í Bryggjubúð með kjörgögn var búið að stilla upp kjörstað og íbúar voru fljótir að kjósa,“ segir Bergrún.

„Þetta er auðvitað löng vegalengd fyrir okkur og því var frábært að áhöfnin á Baldri beið eftir því að kjósendur kláruðu að kjósa svo við gætum farið með bátnum áleiðis á Brjánslæk,“ segir Bergrún.

Hafa ber í huga að Sýslumaðurinn á Vesturlandi er einmitt til húsa í Stykkishólmi.
Um aldamótin 1900 bjuggu á fjórða hundrað íbúa í eynni og eru heimildir til um íbúa þar frá landnámi. Nú búa aðeins tvær fjölskyldur í Flatey að staðaldri.

Bergrún segir þetta vera einn af föstu liðunum í kosningum, að keyra um umdæmið og setja upp kjördeildir áður en að eiginlegum kjördegi kemur.

„Nú erum við búin með Flatey og við höldum svo ferðalaginu áfram á morgun. Þá liggur leiðin í Reykhóla þar sem við munum setja upp kjördeild fyrir íbúa þar,“ bætir Bergrún við. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.