Stuðningsmenn Lazio spreyjuðu um helgina slagorð, merki og tákn tengdu gyðingahatri á veggi á Ólympíuleikvanginum í Róm og dreifðu auk þess myndum af Önnu Frank í búningi erkifjendanna í Roma.
Framkoma stuðningsmannanna hefur verið fordæmd og harðlega gagnrýnd á Ítalíu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Lazio gerast sekir um svona hegðun. Oftar en ekki nota þeir gyðingahatrið til að gera lítið úr erkifjendum sínum í AS Roma.
Today @repubblica responded to LAZIO fans Anti-Semitic Anna Frank stickers left at the Olimpico: "We're all Anna Frank". pic.twitter.com/AYVXvcu7L3
— Everything Napoli (@NaplesAndNapoli) October 24, 2017
Claudio Lotito, forseti Lazio, hefur hafið herferð gegn gyðingahatri stuðningsmanna félagsins. Hann heimsótti minnisvarða um helför gyðinga í gær og ætlar líka að senda 200 unga Lazio-stuðningsmenn í heimsókn til Auschwitz þar sem aðalútrýmingarbúðir nasista voru í seinni heimsstyrjöldinni.
Lazio mætir Bologna í kvöld og munu leikmenn Lazio- liðsins mæta allir til leiks í treyju með mynd af Önnu Frank. Þá verður lesið upp úr dagbók Önnu Frank í hátalarakerfinu á öllum leikvöngum í Seríu A, B og C í þessari viku. Dagbókarfærslan hennar er frá 15. júlí 1944.
Guardian segir frá.