Enski boltinn

Efnilegasti leikmaður Liverpool með þrennu á móti Brasilíu á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rhian Brewster fagnar í leiknum í dag.
Rhian Brewster fagnar í leiknum í dag. Vísir/Getty
Rhian Brewster er nafn sem fótboltaáhugafólk getur farið að leggja á minnið en þessi stórefnilegi sóknarmaður hefur farið á kostum með sautján ára landsliði Englendinga á HM U-17 í Indlandi.

Sautján ára landsliðið er enn eitt unglingalandslið Englendinga sem er að gera frábæra hluti á stórmótum en undanfarin ár hefur hvert liðið á fætur öðrum náð mjög góðum árangri á HM eða EM.

Rhian Brewster skoraði þrennu fyrir enska landsliðið í dag í 3-1 sigri á Brasilíu í undanúrslitaleik heimsmeistarakeppninnar. Alls mættu yfir 63 þúsund áhorfendur á leikinn sem fór fram á Salt Lake leikvanginum í Kolkata.





 

Brewster skoraði mörkin sín á 10. mínútu, á 39. mínútu og á 77. mínútu. Brassarnir jöfnuðu metin á 21. mínútu.  Í öllum þremur mörkunum var Brewster á hárréttum stað á hárréttum tíma.

Þetta var önnur þrenna hans í röð því hann skoraði einnig þrennu í 4-1 sigri á Bandaríkjamönnum í átta liða úrslitunum. Þá skoraði hann í vítaspyrnukeppninni á móti Japan í sextán liða úrslitunum.







England mætir annaðhvort Spáni eða Malí í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Rhian Brewster er nú markahæsti maður keppninnar með sjö mörk en það eru tveimur mörkum meira en næstu menn.





 

Rhian Brewster er fæddur í London en kom til Liverpool frá Chelsea þegar hann var fimmtán ára gamall.

Brewster hefur ekki enn spilað með aðalliði Liverpool en hann skoraði og gaf tvær stoðsendingar á félaga sína í 23 ára liði félagsins áður en hann fór til Indlands með 17 ára landsliðinu.

Rhian Brewster.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×