Gonzalo Higuaín skoraði bæði mörk Juventus í 0-2 sigri á AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.
Argentínumaðurinn kom Juventus yfir á 23. mínútu með sínu 100. marki í ítölsku deildinni. Higuaín bætti svo öðru marki við á 63. mínútu.
Með sigrinum jafnaði Juventus Napoli að stigum á toppi deildarinnar. Napoli heldur þó toppsætinu sökum betri markatölu.
Milan er hins vegar í 8. sæti deildarinnar með 16 stig, 12 stigum á eftir Napoli og Juventus.
Milan var duglegt á félagaskiptamarkaðinum í sumar en það hefur ekki skilað sér inni á vellinum. Liðið hefur tapað fimm af 11 deildarleikjum sínum og Vicenzo Montella, stjóri Milan, situr í sjóðheitu sæti.

