Erlent

Breskur þingmaður til rannsóknar fyrir að biðja aðstoðarkonu um að kaupa kynlífsleikföng

Kjartan Kjartansson skrifar
Mark Garnier er í klandri eftir að greint var frá vafasömu framferði hans í garð fyrrverandi ritara.
Mark Garnier er í klandri eftir að greint var frá vafasömu framferði hans í garð fyrrverandi ritara. Vísir/AFP

Rannsókn er hafin á því hvort að þingmaður breska Íhaldsflokksins hafi brotið siðareglur ráðherra þegar hann bað ritara sinn um að kaupa kynlífsleikföng. Hann hefur einnig viðurkennt að hafa kallað konuna „sykurbrjóst“.



Fyrrverandi ritari Marks Garnier sagði frá því í viðtali við Mail on Sunday að þingmaðurinn hefði látið hana fá pening til að kaupa tvo titrara í verslun með hjálpartæki ástarlífsins. Þá hafi hann kallað hana „sykurbrjóst“ [e. Sugar tits] á öldurhúsi.



Garnier viðurkenndi þetta við blaðið en neitaði því að framkoma hans gæti talist verið kynferðisleg áreitni jafnvel þó að hún gæti talist „risaeðluleg“, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.



Greint hefur verið frá kynferðislegu áreiti í breskum stjórnmálum undanfarna daga. Búist er við að Theresa May, forsætisráðherra, leggi fram aðgerðir í samstarfi við forseta þingsins um að bæta menningu á bresku þinginu og að koma á fót formlegu verkferli til að fjalla um kvartanir hjá þingmönnum og starfsliði þeirra.



Þá neyddist Michael Gove, umhverfisráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins, til að biðjast afsökunar í gær fyrir að hafa líkt því að mæta í viðtal við þáttastjórnanda BBC við það að fara inn í svefnherbergi bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein. Fjöldi kvenna hefur stigið fram og lýst kynferðislegu ofbeldi af hálfu Weinstein síðustu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×