Fótbolti

Íslenska liðið endaði með tíu menn í jafntefli í Albaníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Albert Guðmundsson, fyrirliði 21 árs landsliðsins.
Óttar Magnús Karlsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Albert Guðmundsson, fyrirliði 21 árs landsliðsins. Vísir/Getty
Strákarnir í 21 árs landsliðinu náðu ekki að koma fram hefndum frá því í fyrri leiknum á Íslandi en fara heim með eitt stig eftir markalaust jafntefli á móti Albaníu í kvöld í undankeppni EM 2019.

Albanía vann fyrri leikinn 3-2 á Íslandi í byrjun september en íslenska liðið hefur tekið vörnina í gegn og haldið hreinu í tveimur síðustu leikjum sínum.

Strákarnir unnu 2-0 útisigur á toppliði Slóvakíu fyrir fimm dögum en Albert Guðmundsson skoraði þá bæði mörkin í leiknum.

Íslenska liðið endaði manni færri í leiknum í kvöld.

Ásgeir Sigurgeirsson kom inná sem varamaður á 82. mínútu en náði þó ekki að enda leikinn því hann fékk beint rautt spjald á 90. mínútu.

Albanarnir voru sókndjarfari í kvöld og áttu ellefu skot að marki á móti sex skotum frá íslenska liðinu.

Íslenska liðið er áfram stigi á eftir Albaníu í fjórða sæti riðilsins eftir þennan leik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×