Innlent

Hnífsstunga í Breiðholti: Einn í haldi lögreglu og leitað að fleiri mönnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gærkvöldi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með mikinn viðbúnað á vettvangi í gærkvöldi. Vísir/Sindri Reyr Einarsson
Einn maður er í haldi lögreglu grunaður um aðild að stunguárás í heimahúsi í Breiðholti í gær. Hann hefur ekki verið yfirheyrður að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en maðurinn var handtekinn í nótt.

Þá leitar lögreglan að fleiri mönnum sem tengjast málinu. Grímur segir leit lögreglu fyrst og fremst beinast að einum manni en jafnframt kunni fleiri að hafa verið á staðnum sem lögregla vilji ná tali af.

 

Maðurinn sem ráðist var á fór á spítala í gærkvöldi og gekkst þar undir aðgerð. Lögreglan hefur því ekki yfirheyrt hann. Maðurinn var stunginn í kviðarholið og lýsir Grímur árásinni sem „töluverðri atlögu“ en þó er ekki talið að maðurinn sé í lífshættu.

Aðspurður um ástæður árásarinnar segir Grímur lögreglu ekki vita um þær þar sem hvorki sé búið að yfirheyra hina grunuðu né þann sem ráðist var á heldur aðeins nokkur vitni.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að mikill viðbúnaður hefði verið á vettvangi árásarinnar. Þannig hafi þrír lögreglubílar verið á staðnum, þrír sjúkrabílar auk sérsveitarbíls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×