Innlent

Lögreglan með hnífsstungu í Breiðholti til rannsóknar

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að störfum á svæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að störfum á svæðinu. Vísir/Sindri Reyr Einarsson
Lögreglan var með talsverðan viðbúnað við Æsufell í Breiðholti á sjöunda tímanum í kvöld. Fréttamaður á staðnum segir þrjá lögreglubíla, þrjá sjúkrabíla og einn sérsveitarbíl hafa verið á staðnum og var ein manneskja með fullri meðvitund borin út úr húsinu á sjúkrabörum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er um hnífsstungu að ræða en ekki liggur fyrir hvort lögregla hafi handtekið einhvern vegna málsins.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom á vettvang á áttunda tímanum í kvöld.

Eftirfarandi tilkynning barst frá lögreglu klukkan 19:54:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til á heimili í Breiðholti fyrr í kvöld en þar hafði maður hlotið stungusár eftir átök. Lögreglan er enn á vettvangi og er málið á frumstigum rannsóknar. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins, enn sem komið er. Lögreglan getur ekki svarað frekari spurningum varðandi málið, á þessu stigi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×