Fótbolti

Heimir: Risa karaktersigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var að vonum hæstánægður eftir 0-3 sigur Íslands á Tyrklandi í Eskisehir í undankeppni HM í kvöld.

„Þetta var mikill og stór sigur, miðað við allt. Það var magnþrungið að vera á þessum velli og þetta var risa karaktersigur, að ganga frá þeim í fyrri hálfleik,“ sagði Heimir í samtali við Vísi eftir leik.

Skipulag íslenska liðsins í leiknum í kvöld var frábært og leikplanið gekk fullkomlega upp.

„Við vissum að við þyrftum að spila góðan varnarleik gegn þeim. Við vorum varkárir í hálfleik og vissum að við myndum fá færi og við nýttum þau. Það skipti sköpum. Hrós til strákanna fyrir gott skipulag og ótrúlega vinnusemi. Alfreð og Jón Daði voru gríðarlega vinnusamir og lokuðu á margar af þeirra sóknum,“ sagði Heimir sem notaði aftur leikkerfið 4-4-2.

„Það vantaði Emil og svo var Aron Einar tæpur. En það var þannig að annar framherjinn datt alltaf niður.“

Á sama tíma og Ísland vann Tyrkland gerðu Króatía og Finnland 1-1 jafntefli. Íslendingum dugar því sigur á Kósovóum á mánudaginn til að komast beint á HM.

„Nú er það okkar í kringum liðið og ykkar fjölmiðlanna að passa að menn fari ekki fram úr sér. Við áttum í erfiðleikum í fyrri leiknum gegn Kósovó og vitum hvað þeir geta gert. Við munum líka eftir leikjunum gegn Kasakstan og Lettlandi í síðustu keppni. Við áttum erfitt með að taka síðasta skrefið. Nú verðum að gíra okkur upp og einbeita okkur 100% að því að ná okkur fyrir næsta leik,“ sagði Heimir að lokum.


Tengdar fréttir

Einkunnir eftir sigurinn í Tyrklandi: Jón Daði maður leiksins

Ísland vann stórbrotinn sigur á Tyrklandi í kvöld, en leiknum lauk með 3-0 sigri Íslands. Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason skoruðu mörk Íslands og liðið hefur því tryggt sér að minnsta kosti umspilssæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×