Fótbolti

Kjartan Henry kallaður inn í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki með Horsens.
Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki með Horsens. Vísir/Getty
Kjartan Henry Finnbogason kemur inn í íslenska karlalandsliðið í fótbolta fyrir leikinn á móti Kósóvó á mánudagskvöldið en þetta staðfestir framherjinn í viðtali á heimasíðu danska félagsins Horsens.

Kjartan Henry kemur inn í liðið vegna þess að Björn Bergmann Sigurðarson er að glíma við meiðsli. Kjartan verður þó væntanlega ekki með íslenska liðinu í kvöld þegar liðið mætir Tyrklandi út í Tyrklandi.





Kjartan Henry fékk símtal frá landsliðsþjálfaranum Heimi Hallgrímssyni í gær og flaug út í dag.

„Landsliðsþjálfarinn hringdi í mig í gær vegna þess að það eru átta leikmenn í hættu á að fara í leikbann eftir leikinn gegn Tyrklandi. Ég flýg til Tyrklands í dag og á morgun er æfing fyrir þá sem spila ekki í kvöld," sagði Kjartan við heimasíðu Horsens.

Kjartan Henry hefur spilað vel með Horsens liðinu á þessu tímabili og með fjögur mörk og eina stoðsendingu í ellefu leikjum í dönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Leikurinn við Kósóvó á mánudagskvöldið verður lokaleikur íslenska liðsins í undankeppninni en mikilvægt er að íslensku strákarnir nái góðum úrslitum í Tyrklandi í kvöld eigi liðið að stíga skref í átt að HM í Rússlandi í Kósóvó-leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×