Erlent

Unglingsstúlku haldið nauðugri í húsbíl í 29 daga

Þórdís Valsdóttir skrifar
Stúlkunni var haldið nauðugri af þremur mönnum í 29 daga.
Stúlkunni var haldið nauðugri af þremur mönnum í 29 daga. Vísir/Getty
Fimmtán ára gamalli stúlku í Minnesota ríki Bandaríkjanna var haldið nauðugri í 29 daga og þurfti að þola mikið ofbeldi. Hún flýði árásarmenn sína síðastliðinn þriðjudag og synti yfir stöðuvatn til að komast undan.

Unglingsstúlkan var lokkuð burt af heimili sínu í bænum Alexandria af vini föður hennar sem hélt henni nauðugri í húsbíl í næsta bæ.

Maðurinn, Thomas Barker, kom upp að henni við heimili hennar og bað hana um aðstoð því sonur hans væri að hegða sér illa. Hún lét blekkjast og elti manninn að bíl hans þar sem hann rændi henni. Móðir hennar tilkynnti hvarf hennar til lögregluyfirvalda stuttu síðar.

Barker var ekki einn að verki. Tveir vinir hans tóku þátt í hvarfi stúlkunnar og þeim misþyrmingum sem hún þurfti að þola á þeim 29 dögum sem þeir héldu henni. Stúlkunni var nauðgað ítrekað, hún var látin dúsa í litlum skáp og þurfti að þola barsmíðar mannanna.

Stúlkunni tókst að komast undan mönnunum eftir tæplega mánaðardvöl í húsbílnum. Mennirnir fluttu hana á annan stað og skipuðu henni að leita matar þar, þaðan flýði hún. Stúlkan stökk út í nærliggjandi stöðuvatn og synti að íbúðahverfi í nágrenninu.

„Ég er ekki góð að synda," sagði stúlkan í viðtali við WCCO fréttastöðina í Minnesota.

Hún hljóp húsa á milli og barði að dyrum þar til eldri bóndi sá til hennar og kom henni til bjargar. Hann þekkti andlit hennar strax því lýst hafði verið eftir henni í tæpan mánuð.

Mennirnir voru handteknir samdægurs og málið er í rannsókn. Barker hefur neitað sök en sagðist hafa verið undir áhrifum metamfetamíns og áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×