Innlent

Nífalt fleiri karlmenn heldur en konur fyrirfóru sér í fyrra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sé fólk haldið vanlíðan eða sjálfsvígshugsunum er meðal annars hægt að hringja í símanúmerið 1717.
Sé fólk haldið vanlíðan eða sjálfsvígshugsunum er meðal annars hægt að hringja í símanúmerið 1717. vísir/valli
Alls 36 karlmenn fyrirfóru sér á síðasta ári og hafa ekki verið fleiri sjálfsvíg karlmanna á einu ári, fyrir utan 2010, þegar þau voru jafn mörg, það sem af er þessari öld. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir nauðsynlegt að efla heilsugæsluna og tryggja sálfræðinga í framhaldsskólum.

„Því miður fer geðheilsu ungs fólks hrakandi. Það eru nýlegar rannsóknir sem sýna fram á það,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. „Við verðum sérstaklega að hlúa vel að ungu fólki. Samhliða styttingu framhaldsskólanáms og aukinni pressu þá er gífurleg eftirspurn eftir ungmennum á vinnumarkaði. Ofan á þetta bætist álag frá samfélagsmiðlum.“

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. VÍSIR/GVA
Anna segir nauðsynlegt að tryggja greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu frá vöggu til grafar. Heilsugæsluna verði að efla og fá sálfræðinga þangað inn sem sinna fullorðnu fólki. „Sem stendur er fyrsta þrep þjónustunnar veikt og það býr til álag á spítalana. Þeir hafa varla bolmagn til að taka á móti öllum sem leita til þeirra,“ segir Anna.

Fjórar konur fyrirfóru sér á síðasta ári og hafa sjálfsvíg kvenna ekki verið færri á síðustu sautján árum. Árið 2011 fyrirfóru fimm sér en á öðrum árum áratugarins hafa sjálfsvíg þeirra verið fleiri en tíu. Sé litið á tölur yfir sjálfsvíg síðustu tuttugu árin má sjá að karlmenn eru tvöfalt til þrefalt líklegri til að stytta sér aldur. Úr tölunum um sjálfsvígin má lesa að karlmenn séu líklegri til að fyrirfara sér fyrr á lífsleiðinni meðan konur gera það frekar um miðjan aldur.

„Við verðum að styðja við fólk sem lendir í mótvindi, hlúa að því og byggja upp mannvænt samfélag. Við lögðumst í átakið Út með'ða árið 2015 og höfum fundið fyrir miklum velvilja í garð þess, bæði frá hinu opinbera og einstaklingum. Nú bíðum við eftir því að starfshópur um þetta málefni, sem skipa átti samkvæmt geðheilbrigðisáætlun frá árinu 2015, verði skipaður.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.