Fótbolti

Emil: Búinn á því svo ég hlýt að hafa gert eitthvað rétt

Emil í baráttunni í kvöld.
Emil í baráttunni í kvöld. vísir/eyþór
Emil Hallfreðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var himinlifandi með 2-0 sigur á Úkraínu í undankeppni HM, en leikið var á Laugardalsvelli. Emil átti glæsilegan leik.

„Þetta er besta tilfinning í heimi. Svona kvöld og svona frammistaða hjá liðinu. Þetta er bara frábært,” sagði Emil í samtali við 365 miðla í leikslok. Hvað vildi íslenska liðið laga fyrir síðari hálfleikinn?

„Við vildum ekki laga neitt. Mér fannst við vera gera þetta nokkuð vel í fyrri hálfleik, en við þurftum að hraða aðeins spilið og að þetta myndi verða þolinmæðisvinna.”

„Við settum mark í byrjun seinni og mér fannst við vera með góð tök á þeim í síðari hálfleik. Mín tilfinningin var að við ætluðum bara halda áfram og bæta við.”

Staðan var markalaus í hálfleik, en bæði lið höfðu fengið nokkuð góð færi. Emil segir að strákarnir hafi bara talað um að halda dampi.

Sjá meira:Umfjöllun: Ísland - Úkraína 2-0 | Stórkostlegur seinni hálfleikur og sigur á Úkraínumönnum

„Við ætluðum að verða þolinmóðir og við vorum nokkuð vissir um að við myndum setja mark á þá,” en hvernig leið Emil að spila með fimm manna miðju í stað fjögurra?

„Fyrir mér er 4-2-3-1 og 4-4-2 voðalega svipað. Þegar við verjumst þá eru þetta nánast 4-4-2 og ég sé ekki neinn mun á þessu. Við spiluðum vel gegn Króatíu í þessu leikkerfi, en gegn Finnum þá áttum við ekki toppleik. Við vorum ákveðnir í að sýna okkur í dag, en maður getur spilað öll leikkerfi og tapað leikjum. Þetta er spurning um viðhorf en ekki leikkerfi.”

„Ég held að fyrra markið hafi gefið okkur kraft. Við vorum með hausinn á réttum stað, allir klárir í leikinn og þetta var liðssigur,” en að lokum var Emil spurður út í stórbrotna frammistöu sína:

„Ég gaf allt í þetta og ég er alveg búinn á því svo ég hlýt að hafa gert eitthvað rétt,” sagði Emil hógvær í leikslok.


Tengdar fréttir

Twitter: VIP-liðið missti af markinu

Ísland karlalandsliðið í knattspyrnu leiðir 1-0 gegn Úkraínu í undankeppni HM í knattspyrnu. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði markið eftir fyrirgjöf Emils Hallfreðssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×