Fótbolti

Jói Berg: Lið eru orðin hrædd við að mæta á Laugardalsvöll

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Berg í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg í leiknum í kvöld. Vísir/Anton
„Það var ekkert planið að taka því rólega í fyrri og keyra svo á þá. Þannig spilaðist bara leikurinn,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson yfirvegaður eftir leik.

„Við töluðum saman í hálfleik um að við gætum spilað hraðar og pressað meira. Það gekk eftir. Þeir voru vissulega meira með boltann í fyrri hálfleik og sköpuðu sér smá en ekkert of mikið. Við vorum töluvert betri í síðari hálfleik. Skoruðum tvö mörk á meðan þeir sköpuðu nánast ekki neitt.“

Það var ekkert sérstakt sem var sagt í hálfleik sem gerði það að verkum að strákarnir komu í seinni hálfleikinn eins öflugir og raun bar vitni.

„Það var bara að halda áfram og gera hlutina almennilega. Það er orðið helvíti erfitt fyrir lið að koma hingað á Laugardalsvöllinn og lið eru orðin hrædd að mæta hingað. Við vitum að við getum keyrt yfir hvaða lið sem er. Sama hvort það sé í fyrri eða seinni hálfleik,“ segir Jóhann Berg sem kom mikið við sögu í fyrra markinu er hann lenti í samstuði við markvörð Úkraínu áður en Gylfi skoraði. Átti að dæma brot á hann?

„Ég veit það ekki því ég veit ekki alveg hvað gerðist. Ég veit ekki hvort ég náði boltanum eða sparkaði í markvörðinn. Svo lenti ég bara á andlitinu og var ringlaður,“ segir kantmaðurinn og hlær. Hann bætti við að liðið ætlaði að bæta upp fyrir tapið í Finnlandi.

„Við ætluðum okkur stærri hluti þar og vissum að við þyrftum þrjú stig í dag. Við vorum kannski ekki komnir með bakið upp við vegg en tap í dag hefði þýtt að við værum í ansi slæmum málum.“


Tengdar fréttir

Ragnar: Mikill léttir eftir klúðrið síðast

Ragnar Sigurðsson, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að framundan séu tveir úrslitaleikir eftir 2-0 sigur á Úkraínu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

Twitter: VIP-liðið missti af markinu

Ísland karlalandsliðið í knattspyrnu leiðir 1-0 gegn Úkraínu í undankeppni HM í knattspyrnu. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði markið eftir fyrirgjöf Emils Hallfreðssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×