Fótbolti

Færeyingar fögnuðu nýju stigameti vel og innilega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn færeyska liðsins fagna marki.
Leikmenn færeyska liðsins fagna marki. Vísir/Getty

Færeyingar eru rétt eins og Íslendingar hæstánægðir með knattspyrnulandslið sitt en færeyska liðið hefur sett nýtt stigamet í sögu sinni. Liðið er komið með átta stig í undankeppni HM 2018 en það vann Andorra á heimavelli á sunnudag, 1-0.

Færeyingar byrjuðu undankeppnina á glæsilegan máta, með því að ná markalausu jafntefli gegn Ungverjalandi sem var þá nýbúið að keppa á EM í Frakklandi. Síðan kom frábær 2-0 sigur á Lettlandi á útivelli.

Síðan komu fimm leikir í röð án sigurs - fjögur töp og svekkjandi markalaust jafntefli við Andorra á útivelli. En þeir bættu fyrir það með sigrinum á sunnudag og fá Færeyingar tækifæri til að bæta stigametið enn frekar þegar þeir taka á móti Lettum í Þórshöfn þann 7. október.

Rúmlega 50 þúsund manns búa í Færeyjum og en rétt tæp tíu prósent íbúanna voru á vellinum á sunnudag og urðu vitni að þessum sögulega sigri.

Þjálfari liðsins er hinn danski Lars Olsen og hann sagði í samtali við TV2 í Danmörku að það hafi verið mikil gleði eftir leikinn.

„Fögnuðurinn var gríðarlegur eftir leik. Það tók leikmenn 5-10 mínútu að komast inn í klefa og þá byrjaði fögnuðurinn aftur. Og ég held að þau eigi þetta skilið - sérstaklega leikmennirnir,“ sagði Olsen.

„Þeir sem spila með færeyska liðinu eru að leggja hart að sér á hverjum degi og leggja mikið á sig í hverjum einasta leik. Það er engin stjarna í liðinu - liðið sjálft er stjarnan. Þeir eiga þetta skilið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.