Erlent

NFL-stjarna sakar lögregluna í Las Vegas um ofbeldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Michael Bennett, varnarmaður Seattle Seahawks, var handtekinn í Las Vegas helgina sem Mayweather og Conor börðust í borginni.
Michael Bennett, varnarmaður Seattle Seahawks, var handtekinn í Las Vegas helgina sem Mayweather og Conor börðust í borginni. vísir/getty
Ein skærasta stjarna NFL-deildarinnar, Michael Bennett, varnarmaður Seattle Seahawks, sakar lögregluna í Las Vegas um að hafa beitt sig ofbeldi þegar hann var handtekinn í borginni eftir bardaga þeirra Floyd Mayweather og Conor McGregor þann 26. ágúst síðastliðinn.

Bennett segir að lögreglan hafi beitt hann óhóflegu afli og verið móðgandi í hans garð við handtökuna sem Bennett segir hafa verið tilhæfulausa. Hann ýjar að því að lögreglan hafi handtekið hann vegna þess að hann er svartur en lögregluofbeldi í garð svartra hefur verið mikið í deiglunni í Bandaríkjunum undanfarin ár og hefur Bennett áður mótmælt kynþáttamisrétti í landinu.

Myndband af handtökunni sem birt var á vef TMZ má sjá hér fyrir neðan.

Lögreglan í Las Vegas sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær og hefur hafið rannsókn á handtökunni. Samkvæmt lögreglunni var Bennett handtekinn vegna tilkynningar sem barst um skotárás nálægt Drai-næturklúbbnum. Var hann handtekinn í tengslum við rannsókn þess máls en sleppt eftir 10 mínútur. Maðurinn sem grunaður var um skotárásina var ófundinn.

Bennett lýsir því á Twitter hvernig hann upplifði handtökuna. Segir hann meðal annars að lögreglumaðurinn hefði beint byssu að höfði hans og hótað að skjóta það af ef hann svo mikið sem hreyfði sig. Bennett kveðst hafa verið dauðhræddur og ringlaður. Annar lögreglumaður hafi svo komið á staðinn og sett hnéð í bakið á honum þannig að Bennett átti erfitt með að anda.

„Það eina sem ég gat hugsað var að ég myndi deyja fyrir það að eitt að vera svartur og að húðlitur minn væri á einhvern hátt ógn,“ skrifar Bennett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×