Innlent

„Þykir leitt að því sé ranglega haldið fram að stuðningsmenn mínir hafi ekki áhuga á starfi þingsins“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ísak Einar Rúnarsson
Ísak Einar Rúnarsson Aðsent
Ísak Einar Rúnarsson, sem er annar þeirra sem sækist eftir því að vera kjörinn formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna,  hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segist tilneyddur til að varpa ljósi á ákveðna þætti framboðsins vegna fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga. Formannskosningin er lokahnykkurinn á Sambandsþingi SUS sem fer fram á Eskifirði og hefst á morgun. 

Tveir eru í framboði, annars vegar Ísak Einar og hins vegar Ingvar Smári Birgisson, en frá því var greint á vef Vísis fyrr í dag að stuðningsmenn Ingvars Smára saki stjórn Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, um að ganga erinda Ísaks Einars. 

Í tilkynningunni segir Ísak Einar umræðuna um sitt framboð hafa lotið að þrennu: Vali á þingfulltrúum Heimdallar, lögheimilisbreytingum og nú síðast ferðamáta framboðs hans á þingið, en Vísir sagði frá því í dag að Ísak Einar og kosningateymi hans ætli að bjóða sínum stuðningsmönnum í fjölmenna skemmtiferð austur á firði. Þeim sem stendur ferðin til boða hefur verið kynnt að allt verði í boði. Frí rúta, frí gisting og frítt áfengi.

Segir kosningakerfi SUS hafa marga ágalla

„Varðandi þingfulltrúa Heimdallar og annarra félaga er ég þeirrar skoðunar að enginn ætti að vera útilokaður frá þinginu og það ætti að vera opið öllum flokksbundnum Sjálfstæðismönnum á aldrinum 15-35 ára. Lög SUS gera hins vegar ráð fyrir því að hvert félag hafi ákveðinn fjölda fulltrúa en slíkt veldur því að færri komast að en vilja. Eftir að í ljós kom að einhverjir af núverandi trúnaðarmönnum flokksins fengu ekki sæti á þingið, t.a.m. Jóhannes Stefánsson varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi, tók stjórn Heimdallar listann til endurskoðunar og lagði til við stjórn SUS að Jóhannesi og fleirum yrði úthlutað sæti. Þeirri tillögu hafnaði stjórn SUS á fundi fyrr í vikunni,“ segir Ísak. 

Hann segir lögheimilisbreytingar í aðdraganda þingsins á Eskifirði hafa verið fréttaefni. „Þær einskorðast þó ekki við annað framboðið eða Heimdall í Reykjavík, heldur hafa þær átt sér stað í fleiri félögum og meðal stuðningsmanna beggja framboða. Fyrirkomulag kosninganna í SUS hefur því miður orðið til þess að stjórnir félaga eru oft á tíðum hliðhollar öðrum formannsframbjóðandanum og skipa á þingið í samræmi við það. Þess vegna virðast margir stuðningsmenn mínir og stuðningsmenn mótframbjóðandans telja ómögulegt að fá sæti á þingið frá Sjálfstæðisfélaginu í sínu bæjarfélagi og grípa því til þess ráðs að færa lögheimili sitt til að auka líkur á að fá sæti á þinginu.“

Hann segir ljóst að það kosningakerfi sem gildir innan SUS hafi marga ágalla og yrði það hans fyrsta verk, nái hann kjöri sem formaður SUS, að vinna að breytingum á fyrirkomulagi þeirra. 

„Það er jafnframt umhugsunarefni að mótframbjóðandi minn og stuðningsmenn hans sem hafa farið með öll völd innan stjórnar SUS síðastliðin átta ár, skuli aldrei hafa lagt til breytingar á kerfinu.“

Áfengi haldið frá þeim yngstu

Þeir sem fara í rútuna á morgun munu gista á Sauðárkróki yfir nóttina en hann segir rangt að farið verði á Egilsstaði daginn eftir. Förinni sé heitið beint á sambandsþingið á Eskifirði. Hann tekur einnig fram að framboð hans hafi gætt þess að halda áfengi frá þeim sem ekki hafa aldur til að neyta þess. Þeir sem yngstir eru munu þess vegna fara í sér rútu. 

Tilkynningu Ísaks má lesa í heild hér fyrir neðan:

Undirritaður er í framboði til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS). Töluverð átök hafa staðið yfir í aðdraganda sambandsþingsins sem haldið verður á Eskifirði nú um helgina. Hingað til hef ég ekki viljað draga þau átök fram í opinbera umræðu en vegna fjölmiðlaumfjöllunar síðastliðna daga þar sem kastljósinu hefur aðallega verið beint að mínu framboði sé ég mig tilneyddan til þess að varpa ljósi á ákveðna þætti. 

Umræðan hefur lotið að þrennu: Vali á þingfulltrúum Heimdallar, lögheimilisbreytingum og nú síðast ferðamáta framboðs míns á þingið.

Varðandi þingfulltrúa Heimdallar og annarra félaga er ég þeirrar skoðunar að enginn ætti að vera útilokaður frá þinginu og það ætti að vera opið öllum flokksbundnum Sjálfstæðismönnum á aldrinum 15-35 ára. Lög SUS gera hins vegar ráð fyrir því að hvert félag hafi ákveðinn fjölda fulltrúa en slíkt veldur því að færri komast að en vilja. Eftir að í ljós kom að einhverjir af núverandi trúnaðarmönnum flokksins fengu ekki sæti á þingið, t.a.m. Jóhannes Stefánsson varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi, tók stjórn Heimdallar listann til endurskoðunar og lagði til við stjórn SUS að Jóhannesi og fleirum yrði úthlutað sæti. Þeirri tillögu hafnaði stjórn SUS á fundi fyrr í vikunni. 

Lögheimilisbreytingar í aðdraganda þingsins á Eskifirði hafa verið fréttaefni. Þær einskorðast þó ekki við annað framboðið eða Heimdall í Reykjavík, heldur hafa þær átt sér stað í fleiri félögum og meðal stuðningsmanna beggja framboða. Fyrirkomulag kosninganna í SUS hefur því miður orðið til þess að stjórnir félaga eru oft á tíðum hliðhollar öðrum formannsframbjóðandanum og skipa á þingið í samræmi við það. Þess vegna virðast margir stuðningsmenn mínir og stuðningsmenn mótframbjóðandans telja ómögulegt að fá sæti á þingið frá Sjálfstæðisfélaginu í sínu bæjarfélagi og grípa því til þess ráðs að færa lögheimili sitt til að auka líkur á að fá sæti á þinginu. Fyrir mér er alveg ljóst að það kosningakerfi sem gildir innan SUS hefur marga ágalla og það verður fyrsta verk mitt sem formaður SUS, nái ég kjöri, að vinna að breytingum á fyrirkomulagi þeirra. Það er jafnframt umhugsunarefni að mótframbjóðandi minn og stuðningsmenn hans sem hafa farið með öll völd innan stjórnar SUS síðastliðin átta ár, skuli aldrei hafa lagt til breytingar á kerfinu.  

Nú síðast hefur ferðamáti stuðningsmanna minna á þingið komið til umræðu. Þá þykir mér rétt að leiðrétta rangfærslur sem komu fram í frétt Vísis um málið fyrr í dag. Raunin er sú að stuðningsmenn mínir munu flestir leggja af stað á þingið á föstudegi eftir vinnu með rútu. Þaðan verður keyrt yfir á Sauðárkrók þar sem gist verður yfir nóttina, enda er leiðin á Eskifjörð löng. Daginn eftir verður ekki farið á Egilsstaði líkt og kom fram í frétt Vísis, heldur verður farið beint á sambandsþingið á Eskifirði þar sem stuðningsmenn mínir taka þátt í dagskrá þingsins. Mér þykir leitt að því sé ranglega haldið fram að stuðningsmenn mínir hafi ekki áhuga á starfi þingsins, en lagt var upp með rútuferð til þess eins að halda kostnaði í lágmarki. Hins vegar hef ég heyrt af því að stuðningsmenn mótframbjóðenda míns muni margir koma með flugi á sunnudagsmorgninum, rétt fyrir kosningar.

Að lokum er rétt að taka fram að framboð mitt hefur gætt þess í hvívetna að halda áfengi frá þeim sem hafa ekki aldur til að neyta þess. Þeir sem yngstir eru munu þess vegna fara í sér rútu. Í þessum töluðu orðum er ég á leið til Eskifjarðar og hlakka mikið til þingsins. Ég vona að fólk felli ekki áfellisdóma yfir þeim sem ekki geta tekið sér frí heldur þurfa að leggja af stað á þingið eftir vinnu eða skóla annað kvöld. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf sótt styrk sinn í fjöldann og ég er fullviss um að þingið verði bæði skemmtilegra, kraftmeira og áhugaverðara eftir því sem fleiri mæta. Ég hlakka til taka þátt í störfum þingsins með öllum þeim sem leggja leið sína þangað.

Ísak Rúnarsson.


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Sjö ungir menn, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×