Innlent

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ísak Rúnarsson, annar frambjóðenda til formanns SUS, segist ekki þekkja til mannanna sem hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73.
Ísak Rúnarsson, annar frambjóðenda til formanns SUS, segist ekki þekkja til mannanna sem hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73. Vísir/aNTON BRINK/Stefán
Sjö ungir menn á aldrinum 18-26 ára, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.

Einn mannanna, sem þangað til nýlega var með lögheimili á Reykjanesi, segist hafa verið beðinn um að flytja lögheimili sitt til Reykjavíkur vegna sambandsþingsins og að greiða tilteknu framboði atkvæði sitt. Annars virðast fólksflutningarnir mjög leyndardómsfullir.

Sagði vin sinn hafa beðið sig um að flytja lögheimilið vegna sambandsþingsins

Ungu mennirnir voru allir með lögheimili í sveitarfélögum á Reykjanesi, utan einn í Garðabæ, en nú hafa lögheimili þeirra verið flutt að Álftamýri 73.

Húsið er í eigu Martins Eyjólfssonar, sendiherra Íslands í Berlín, og konu hans Evu Þengilsdóttur, en þar er nú meðal annars til heimilis sonur Evu, Þengill Björnsson, sem er vinur annars frambjóðenda til formanns SUS.

Blaðamaður náði tali af tveimur af ungu mönnunum sjö sem eru nú með lögheimili að Álftamýri 73. Annar þeirra, Sigurður Salómon Guðlaugsson, vildi ekkert tjá sig um lögheimilisflutningana að öðru leyti en að þeir hefðu verið gerðir. Hinn maðurinn, Grétar Karlsson, sagði að hann hefði flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur vegna sambandsþingsins en vissi annars lítið um málið.

„Vinur minn í Keflavík talaði um að ég kæmi frá bæjarfélagi sem væri of lítið, af því að ég bý í Sandgerði.“

Þá var flutningurinn gerður til þess að Grétar greiddi vini sínum, sem ráðlagði honum að flytja lögheimili sitt, atkvæði á sambandsþinginu kæmist hann á það. Þá vildi Grétar ekki segja til um það í hvaða framboði vinur sinn væri.

Ekki er þó fullvíst hvort stjórn Heimdallar hafi tilnefnt mennina, sem eru með lögheimili að Álftamýri 73, á sambandsþingið en Ísak Rúnarsson, frambjóðandi til formanns SUS, segir í samtali við Vísi að framboðin hefðu enn ekki fengið samþykkta fulltrúalista í hendurnar.

Gagnrýndi mótframboðið fyrir lögheimilisflutninga

Tveir eru í framboði til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, Ingvar Smári Birgisson og Ísak Rúnarsson. Kosið verður um nýjan formann á sambandsþingi á Eskifirði helgina 8.-10. september.

Ingvar Smári, annar frambjóðendanna, gagnrýndi á fimmtudag stjórn Heimdallar fyrir val á lista yfir þá fulltrúa sem sendir verða á komandi sambandsþing. Heimdallur er með 45% allra þingsæta á þinginu eða 263 sæti alls og því vega sætin þungt. Ingvar sakaði stjórn Heimdallar enn fremur um að styðja við framboð mótframbjóðanda síns.

Þá segir hann í bréfinu að stjórnin hafi gripið til þess ráðs að biðja hátt í hundrað manns að færa lögheimili sín til Reykjavíkur og þeir hafi þannig fengið forgang fram yfir Reykvíkinga með áralanga reynslu á bakinu af störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.Ísak Rúnarsson, frambjóðandi til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna.vÍSIR/STEFÁN
Frambjóðandi til formanns segist ekki þekkja til lögheimilisflutninganna

Aðspurður hvort lögheimilisflutningar af þessu tagi séu hluti af kosningabaráttu framboðsins segist Ísak Rúnarsson, annar frambjóðenda til formanns SUS, ekki þekkja til þess.

„Ég þekki ekki þessa menn, ég þekki náttúrulega til Þengils, við erum félagar, en ég bókstaflega veit ekki hverjir eru þarna búsettir. Ég þekki ekki hverjir eru búsettir hvar í Reykjavík,“ segir Ísak.

„Menn geta flutt lögheimili eins og þeir vilja og það er þá bara á þeirra forræði að gera það. Ég get ekki stýrt því hvar menn búa.“

Kemur af fjöllum

Þá er Ísak inntur eftir því hvort það teljist ekki undarlegt að umræddir sjö menn flytji lögheimili sitt á þetta tiltekna heimili nú í aðdraganda sambandsþingsins. Hann segir þá að eitthvað virðist vera um slíka flutninga.

„Það er greinilega eitthvað um lögheimilisflutninga, virðist vera, en ég get svosem ekkert fullyrt það. Ég veit ekki hverjir búa hvar. Ég hef engin gögn, ég var að reyna að skoða þetta, en fann engin gögn um þetta.“

Þá segir hann framboðið ekki enn hafa fengið samþykkta lista yfir fulltrúa á sambandsþingið í hendurnar þar sem listarnir hafi ekki enn verið endanlega samþykktir af stjórn SUS.

Ísak segir enn fremur að honum þyki ólíklegt að þeir sem flytji lögheimili sitt svo skyndilega fyrir kosningar verði valdir sem aðalmenn á sambandsþingið.Þengill Björnsson er einn húsráðenda að Álftamýri 73.vÍSIR/ANTON BRINK
Þekkjast í gegnum félagsstörf

Þengill Björnsson, húsráðandi að Álftamýri 73 og sonur eigenda hússins, hefur starfað við kosningabaráttu nokkurra stjórnmálaflokka. Hann er einnig vinur Ísaks og hefur unnið með honum í ýmiss konar félagsstörfum.

Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis um málið segir Þengill, aðspurður að því af hverju mennirnir hefðu fengið lögheimili í Álftamýri, að þar hefðu hann og félagar sínir lögheimili.

„Ég vænti þess að þú sért að visa til æskuheimilis míns að Álftamýri 73, hvar ég og mínir félagar búum og eigum lögheimili.“

Þá sagði hann tengingu ungu mannanna sjö við sig og framboð Ísaks vera í gegnum félagsstörf.

„Eins og með svo marga aðra, í gegnum félagsstörf,“ segir Þengill. Aðspurður hvort eigendur hússins væru meðvitaðir um nýju heimilismennina segist Þengill sjálfur vera húsráðandi og „vel meðvitaður“ um þá.

Óviss hvot hann fái að kjósa

Ekki náðist í eigendur hússins, hjónin Martin Eyjólfsson og Evu Þengilsdóttur, við vinnslu þessarar fréttar.

Þá segist Þengill ekki geta gert ráð fyrir að einstaklingarnir, sem hafa nú lögheimili að Álftamýri 73, muni kjósa framboð Ísaks á sambandsþinginu.

„Hver og einn fulltrúi á þinginu tekur sína eigin ákvörðun. Ég veit hvað ég mun kjósa en sjálfur er ég reyndar varamaður á þinginu, þannig að það er alls óvíst hvort ég fái yfir höfuð að kjósa. Ég hlakka þó mikið til að fara austur enda aldrei komið til Eskifjarðar, sem mér skilst að sé eitt fallegasta bæjarstæði landsins, þótt víðar væri leitað.“


Tengdar fréttir

Fimm aðildarfélög SUS hyggjast segja sig úr sambandinu

Ingvar Smári, sem býður sig fram til formanns segir að "stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálf­stæðismanna í Reykjavík, sem leynt og ljóst styður framboð Ísaks Rúnarssonar, til formennsku gætti þess við val á lista sinn að útiloka þá frá þinginu sem ekki eru yfirlýstir stuðningsmenn hans.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.