Innlent

Helstu atriðin úr réttarhöldunum yfir Thomasi Möller

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Thomas í réttarsal á mánudag. Hann hefur ávallt hulið andlit sitt þegar myndavélarnar hafa verið nærri.
Thomas í réttarsal á mánudag. Hann hefur ávallt hulið andlit sitt þegar myndavélarnar hafa verið nærri. vísir/eyþór
Öðrum degi aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Möller Olsen lauk í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Aðalmeðferðin hófst á mánudag þegar skýrsla var tekin af sakborningnum en Thomas er ákærður fyrir fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana þann 14. janúar síðastliðinn.

Um þrjátíu vitni komu fyrir dóminn á mánudag og þriðjudag en þar að auki komu sjö skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq fyrir dóminn við fyrirtöku í júlí og gáfu skýrslu. Var það gert þá þar sem togarinn var í höfn í Hafnarfirði.

Thomas var skipverji á Polar Nanoq þegar meint brot hans áttu sér stað en togarinn var einmitt í höfn í Hafnarfirði þann 14. janúar. Thomas hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 19. janúar en ákæran á hendur honum var gefin út þann 30. mars. Hann neitar sök í málinu.

Hér er tekið saman það helsta sem komið hefur fram við skýrslutökur í málinu hingað til.

Nikolaj Olsen bar vitni í dómsal á mánudag. Vísir/Anton Brink
Gjörbreyttur framburður Thomasar sem bendir á Nikolaj

Thomas var sá fyrsti sem gaf skýrslu þegar aðalmeðferðin hófst á mánudag. Frásögn hans af því sem gerðist aðfaranótt laugardagsins 14. janúar tók miklum breytingum frá því sem hann hafði sagt í skýrslutökum hjá lögreglu.

Þannig kannaðist hann hvorki við það að hafa tekið Birnu upp í rauðan Kia Rio-bíl sem hann hafði verið með á leigu og ekið nóttina sem Birna hvarf, eins og hann hafði viðurkennt áður, né að hafa kysst hana, eins og hann sagði bæði við lögreglu og við samstarfsmann sinn á Polar Nanoq.

Thomas sagði þó frá því að stúlka hefði komið upp í bílinn á Laugavegi. Hann hefði hugsað með sér að hann gæti hjálpað henni og skutlað henni heim en þegar hann stoppaði við golfskála Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs til að fara út að pissa hafi Nikolaj Olsen, annar skipverji á Polar Nanoq, ekið burt á bílnum með stúlkuna. Thomas hafði farið niður í miðbæ til að hitta Nikolaj sem var úti að skemmta sér.  

Þegar hann hafi komið til baka hafi stúlkan ekki verið í bílnum. Thomas hafi spurt hvar stúlkan væri og sagði Nikolaj að hún byggi þarna rétt hjá og ætlaði að labba heim.

Þegar Thomas var spurður út í það hvers vegna hann hefði ekki sagt svona frá hjá lögreglu bar hann fyrir sig minnisleysi og því að einangrunin og slæm framkoma lögreglunnar við hann hefði ekki haft góð áhrif á hann.

Nikolaj efast um frásögn Thomasar af atburðum næturinnar

Nikolaj, sem um tíma sat í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að málinu en er nú vitni, gaf einnig skýrslu á mánudag. Hann kvaðst muna lítið eftir atburðum næturinnar vegna drykkju en mundi þó að kona hafi komið upp í bílinn við Laugaveg. Hann mundi þó lítið eftir henni og gat hvorki lýst henni né sagt til um að hún hafi verið Birna Brjánsdóttir.

Nikolaj efaðist um að hann hefði getað ekið bílnum þessa nótt, ekki aðeins vegna þess hversu drukkinn hann var heldur einnig vegna þess að hann er ekki með bílpróf. Þá efaðist hann um að hann hefði talað við konuna í bílnum vegna ölvunar en Nikolaj kvaðst hafa setið í farþegasætinu fram í en stúlkan aftur í.

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn í vikunni. Vísir/Anton Brink
Segja Thomas hafa orðið mjög taugaóstyrkan við skilaboð frá íslenskum blaðamanni

Skipverjarnir sjö sem gáfu skýrslu við fyrirtökuna í júlí báru Thomasi vel söguna og lýstu honum sem vingjarnlegum og vinsælum manni sem væri samviskusamur í sinni vinnu. Skilaboð sem hann fékk hafi hins vegar orðið til þess að hann fór að gruna þá um eitthvað misjafnt.

Annars vegar var um að ræða skilaboð frá íslenskum blaðamanni sem spurði hann út í rauðu Kia Rio-bifreiðina og hins vegar skilaboð frá kærustunni hans sem sagði að hann væri hugsanlega grunaður í málinu.

 

Lýstu skipverjarnir því að Thomas hafi orðið mjög taugaóstyrkur við skilaboðin og til að mynda ekki viljað borða neitt. Skipstjórinn og stýrimaðurinn hafi ákveðið að gefa honum róandi.

Thomas var beðinn um að lýsa því fyrir dómi hver staða hans hafi verið á þeim tímapunkti sem hann var handtekinn en hann hefur verið viðurkennt að hafa verið með rúm 20 kíló af kannabisefnum í káetu sinni.

Kvaðst hann hafa verið mjög hræddur og að handtakan hafi verið ógnvekjandi enda hafi mennirnir sem handtóku hann verið vopnaðir. Thomas hafi hugsað með sér að hann væri á leiðinni í fangelsi vegna fíkniefnanna.

Kia Rio-bíllinn sem Thomas tók á leigu. Mikið magn blóðs úr Birnu fannst við rannsókn lögreglu á bílnum.Vísir
Lífsýni tengja Thomas við Birnu

Augljóst er að lögreglan safnaði mikið af gögnum við rannsókn málsins en þar á meðal eru lífsýni sem tenga Thomas beint við Birnu. Skemmst er frá því að segja að Thomas gat ekki útskýrt þessi lífsýni og hvers vegna þau væru tilkomin við aðalmeðferð málsins en á meðal gagna málsins eru ökuskírteini Birnu og skór hennar.

Þannig fundust fingraför Thomasar á ökuskírteini Birnu en fyrir dómi kvaðst hann aldrei hafa séð ökuskírteini hennar og kunni ekki skýringar á því hvers vegna fingrafarið hans var á því. Hann sagði að mögulega hefði hann snert það án þess að vita það þegar hann var að taka til í bílnum.

Þá voru þekjufrumur af Birnu og Thomasi á skóreimum vinstri skós Birnu sem fannst við Hafnarfjarðarhöfn tveimur dögum eftir að hún hvarf. Thomas gat ekki útskýrt hvers vegna lífsýni úr honum voru á reimunum og sagðist aldrei hafa séð skóna.

Komið hefur fram við aðalmeðferðina að mikið magn blóðs úr Birnu fannst í rauða Kia Rio-bílnum sem Thomas var með á leigu. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við neitt blóð í bílnum og að hann hefði ekki gert tilraun til að þrífa það þó að gögn málsins sýni að einhver hefur reynt að þrífa það burt.

Hins vegar sagði Thomas að stúlkan sem hann hefði tekið upp í bílinn hefði ælt og hann hefði þrifið æluna. Lögreglumaður sem rannsakaði bílinn hrakti þennan framburð Thomasar og sagði að engin æla eða ummerki um ælu hefðu fundist í bílnum.

Ragnar Jónsson, sem er með rauða möppu á myndinni, bar vitni fyrir dómi í gær. Hann rannsakaði rauða Kia Rio-bílinn. Vísir/Vilhelm
Útilokaði Nikolaj sem geranda í málinu

Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og blóðferlasérfræðingur, sagði fyrir dómi í gær að hann teldi útilokað að Nikolaj Olsen væri gerandi í málinu. Vísaði hann meðal annars í það að ekkert blóð hefði fundist á fatnaði Nikolaj en hluti af fatnaði Thomasar sem hann var í aðfaranótt laugardagsins fannst aldrei.

Þá taldi Ragnar mjög ólíklegt að Nikolaj hafi verið í bifreiðinni þegar Birna varð fyrir því ofbeldi sem þar virðist hafa átt sér stað, einfaldlega vegna þess að miðað við rannsóknina á bílnum þá hefði verið mjög ólíklegt að einhver sem sæti í farþegasætinu fram í að sleppa við að fá blóð á sig. Blóðið hafi dreifst svo víða um bílinn.  

Áverkar veittir með vinstri hönd

Í máli þýsks réttarmeinafræðings sem bar vitni fyrir dómi í gær kom fram að hann hefði sjálfur gert tilraun í Kia Rio-bíl til að reyna að draga fram með hvorri höndinni ákveðnir áverkar höfðu verið veittir. Lýsti hann því að ekki hefði verið hægt að nota hægri höndina þar sem hún hefði orðið fyrir fyrirstöðu af sætisbakinu.

Ekki væri því hægt að hreyfa hægri höndina með þeim hætti. Aðrir áverkar hafi svo getað orðið til við högg með hægri eða vinstri hnefa en réttarmeinafræðingurinn gat ekkert fullyrt um það hvort að gerandinn væri örvhentur eða rétthentur.

Annar matsmaður, íslenskur læknir, gaf einnig skýrslu fyrir dómi í gær. Hann var fenginn til þess að leggja mat á það hvort að Thomas hefði skerta getu til þess að veita högg. Skoðaði læknirinn skemmd í vinstri öxl Thomasar sem er tilkomin vegna liðhlaups í öxlinni. Var það mat læknisins að Thomas hefði ekki skerta getu til að veita högg.

Aðalmeðferðin heldur áfram þann 1. september þegar teknar verða skýrslur af nokkrum vitnum til viðbótar og málflutningur fer fram. Fjölskipaður héraðsdómur hefur þá í mesta lagi fjórar vikur til þess að kveða upp dóm sinn þó að dæmi séu fyrir því að dómarar taki sér lengri tíma til að fara yfir umfangsmikil mál. Það má því búast við dómsuppsögu í október.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×