Innlent

Orkuveitan útvegaði útveggina

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Vesturhús höfuðstöðva OR er illa farið.
Vesturhús höfuðstöðva OR er illa farið. Vísir/Vilhelm
„Við höfum nákvæmlega engar áhyggjur af því,“ segir Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, aðspurður um ummæli forsvarsmanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um hugsanlega málshöfðun vegna mikilla rakaskemmda á vesturhúsi höfuðstöðva Orkuveitunnar. ÞG Verk var aðalverktaki við byggingu höfuðstöðva OR á sínum tíma.

Upplýsingafulltrúi OR lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær að til skoðunar væri að höfða mál á hendur verktakanum sem byggði húsið þó engar ákvarðanir hafi verið teknar. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagði sömuleiðis að OR muni kanna lagalega stöðu sína og hugsanlegan bótarétt þegar fyrir liggur frá dómkvöddum matsmanni hvar ábyrgðin er og hvert fjárhagslegt tjón verður.

Þorvaldur segir að sér þyki einkennilegt að í öllu ferlinu hafi OR aldrei haft samband við ÞG Verk. OR upplýsti í gær að allir útveggir vesturhúss höfuðstöðvanna væru skemmdir. Orsök rakaskemmda væri fyrst og fremst að rigningarvatn kemst í gegnum veðurhlíf útveggjar og nær að byggingarefnum sem eru viðkvæm fyrir raka. Megnið af byggingarefni útveggja vesturhúss er skemmt af völdum raka en kostnaður við úrbætur gæti numið milljörðum króna. Þorvaldur segir útveggina hafa verið á ábyrgð OR.

„Það er ágætt að komi fram að Orkuveitan lét hanna fyrir sig þetta útveggjakerfi. Þeir keyptu útveggjakerfið og sömdu við framleiðandann án okkar aðkomu og sömdu svo við okkur um uppsetningu á því samkvæmt þeirra fyrirmælum. Okkar partur var eingöngu sá að setja upp kerfi sem einhver annar keypti, fullframleitt og fullhannað, samkvæmt þeim fyrirmælum sem okkur voru gefin. Við búumst því ekki við frekari eftirmálum.“

Fjórtán árum eftir að höfuðstöðvarnar voru teknar í notkun er nú ræddur sá möguleiki að rífa hið rakaskemmda hús. Ráðgjafar OR ráðleggja þó að byggð verði glerkápa utan um húsið og útveggir látnir standa. Veggir yrðu síðan endurbyggðir að innanverðu en áætlaður kostnaður við það nemur 1,7 milljörðum króna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.