Innlent

Furðu brött þrátt fyrir allt

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Alvarleg veikindi komu upp í sumarbúðum Skáta á Úlfljóftsvatni.
Alvarleg veikindi komu upp í sumarbúðum Skáta á Úlfljóftsvatni.

Skátarnir sem sýktust af nóróveiru í útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn í gær og fyrradag eru flestir á batavegi. Alls var 181 ungmenni frá Bretlandi flutt frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparmiðstöð í Grunnskólanum í Hveragerði í fyrrakvöld, vegna alvarlegra veikinda sem komu upp í hópnum. Vegna þess hve margir veiktust kviknaði grunur um nóróveiru og var sá grunur staðfestur af sótt­varnar­lækni í gær.

Í gærkvöldi höfðu allir sem ekki hafa fundið til einkenna verið útskrifaðir. Alls veiktust 67 skátar og af þeim eru sex enn veikir. Þessir 67 voru í sóttkví í austur­álmu Grunnskólans í Hveragerði í nótt. Flestir þeirra eru á ung­lingsaldri, 12 til 16 ára. „Vel fer um krakkana og þau eru furðu brött eftir þetta ævintýri,“ segir Fjóla Einarsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi.

Nóróveirusýking er bráðsmitandi og smitast með uppköstum og saurmengun sem borist getur með menguðu vatni og matvælum. Einkenna getur orðið vart 1-2 dögum eftir smit og gera má ráð fyrir að viðkomandi geti smitað í tvo daga eftir að einkenni ganga yfir. Ekki er þó talið að almenningi stafi hætta af þessari sýkingu, segir í tilkynningu frá Landlækni. Fyllsta hreinlætis þarf þó að gæta þegar svona hópsýking kemur upp og sótthreinsa þarf skátabúðirnar, rútur skátanna og fleira. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Mikill viðbúnaður var við Úlfljótsvatn og í Hveragerði vegna hópsýkingarinnar. Strax og grunur kviknaði um nóróveirusýkingu voru allir viðbragðsaðilar kallaðir út; almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, björgunarsveitir, sóttvarnalæknir og fulltrúar frá Rauða krossinum. Læknar og hjúkrunarfræðingar voru einnig kallaðir út í fyrrakvöld til að veita hinum veiku aðhlynningu og meðferð. Flutningur ungmennanna frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparmiðstöðina eru umfangsmestu aðgerðir sjúkraflutninga Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá upphafi.

„Það er lán í óláni að skátarnir voru nýbúnir að taka á móti 6.000 skátum á heimsmóti skáta og allar viðbragðsáætlanir þeirra því nýgerðar og vel niðurnegldar,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, sem heimsótti skáta á heimsmótið, sem haldið var hér á landi, í síðasta mánuði. „Undirbúningsvinna skátanna fyrir alla þessa gesti var eftirtektarverð og þegar þetta kemur upp núna bregðast skátarnir strax við með hárréttum hætti, gerðu réttum aðilum viðvart og ferlið hefur allt verið mjög faglegt af hálfu allra sem að þessu erfiða verkefni hafa komið,“ segir ráðherra og bætir við: „Skátarnir eru ávallt viðbúnir, það virðist aldrei bregðast.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Skipt var um mynd þar sem sú fyrri var ekki við hæfi. Beðist er velvirðingar á birtingunni.


Tengdar fréttir

Allir skátar á batavegi

Langflestir munu væntanlega útskrifast af fjöldahjálparstöðinni í kvöld eða á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×