Innlent

Kveiktu á kertum og minntust vinar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Rútstúni í kvöld.
Frá Rútstúni í kvöld. Vísir/Ernir
Vinir og ættingjar manns á þrítugsaldri sem svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans fyrir helgi komu saman á Rútstúni í Kópavogi í kvöld til að minnast hans. Upphaflega stóð til að fleyta kertum á tjörninni en þar sem ekki hafði fengist leyfi fyrir því var ákveðið að halda á Rútstún.

Talið er að vel á annað hundrað manns hafi verið í Kópavoginum í kvöld þar sem kveikt var á kertum og fólk studdi hvort annað í sorginni. 

Lýst var eftir manninum á fimmtudagskvöldið og var meðal annars leitað í Kársnesi í Kópavogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Morguninn eftir var greint frá því að hann hefði komist í leitirnar.

Vinir og ættingjar sameinuðust í sorg sinni og kveiktu á kertum.Vísir/Ernir
Í kvöldfréttum RÚV í kvöld var fjallað um andlát mannsins sem mun hafa svipt sig lífi innan við sólarhring síðar á geðdeild Landspítalans. Þykir gagnrýnisvert að maður í sjálfsmorðhugleiðingum hafi verið færður í herbergi þar sem mögulegt var að fremja sjálfsmorð. Ekki mun vera um einstakt tilfelli að ræða.

Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans sagðist við Mbl.is í kvöld ekki geta tjáð sig um einstök mál þar sem starfsfólk væri bundið þagnarskyldu. 

„Ef svona at­vik verða mun­um við að sjálf­sögðu fara ofan í saum­ana á þeim og rót­ar­greina eins og við ger­um við öll al­var­leg at­vik,“ sagði María.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×