Erlent

Gera Maduro per­sónu­lega á­byrgan fyrir öryggi stjórnar­and­stöðu­leið­toga

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað Nicolas Madúró, forseta Venesúela, "einræðisherra“.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað Nicolas Madúró, forseta Venesúela, "einræðisherra“. Vísir/AFP
Bandaríkin ætla að gera Nicolas Madúró, forseta Venesúela, persónulega ábyrgan fyrir því að ekkert komi fyrir tvo stjórnarandstöðuleiðtoga sem handteknir voru í landinu í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Donald Trump forseti sendi frá sér í gærkvöldi þar sem handtöku þeirra Leopoldo López og Antonio Ledezma er harðlega mótmælt.

Mennirnir höfðu verið í stofufangelsi síðustu mánuði en voru fluttir í herfangelsi í gær í kjölfar hinna miklu uppþota sem urðu á dögunum þegar kosið var til stjórnlagaþings.

Að minnsta kosti tíu féllu í þeim átökum og stjórnarandstaðan sat að mestu heima þannig að þátttakan varð dræm.

Í yfirlýsingunni kallar Trump Madúró „einræðisherra“ og hann fordæmir aðgerðir ríkistjórnar hans síðustu misserin. Þá segir hann að stjórnarandstöðuleiðtogunum sé haldið ólöglega í fangelsi og krefst lausnar þeirra tafarlaust.

Á mánudag ákváðu Bandaríkjamenn að beita Madúró persónulegum refsiaðgerðum þannig að allar eigur hans þar í landi, ef einhverjar eru, hafa verið frystar, auk þess sem Bandaríkjamönnum er óheimilt að eiga við hann viðskipti.


Tengdar fréttir

Stjórnarandstöðuleiðtogar í Venesúela handteknir

Tveir áberandi leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela voru teknir höndum á heimilum sínum um miðja nótt. Andstæðingar Nicolasar Maduro forseta saka hann um einræðistilburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×