Fótbolti

Heimakonur nánast búnar að tryggja sig inn í átta liða úrslitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sherida Spitse fagnar sigurmarki sínu.
Sherida Spitse fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Holland fór langt með það að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumóts kvenna í fótbolta í kvöld með 1-0 sigri á Danmörku í seinni leik dagsins í A-riðli.

Hollenska liðið hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni en hollensku stelpurnar unnu 1-0 sigur á Noregi í fyrsta leik sínum.

Danir voru líka búnir að vinna sinn fyrsta leik en verða nú að vinna Noreg í lokaleik sínum til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Hollenska liðið er ekki alveg öruggt með sæti sitt því þrjú lið gætu enn orðið jöfn með sex stig en það þarf mikið að gerast svo að þær hollensku komist ekki í átta liða úrslitin.

Eina mark leiksins skoraði Sherida Spitse út vítaspyrnu strax á 20. mínútu leiksins.

Holland er bara búið að skora tvö mörk í þessum fyrstu tveimur leikjum sínum en þau hafa skilað liðinu sex stigum.

Hollensku stelpurnar gera því örugglega betur en á síðasta Evrópumóti þegar stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu skildu þær eftir í riðlinum með 1-0 sigri í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×