Fótbolti

Birkir Már með stoðsendingu í þriðja heimasigri Hammarby í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Góður sigur hjá Hammarby í kvöld.
Góður sigur hjá Hammarby í kvöld. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsbakvörðurinn Birkir Már Sævarsson átti þátt í öðru marki Hammarby í góðum 2-1 heimasigri á Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Birkir Már var ekki eini Íslendingurinn í byrjunarliði Hammarby því markvörðurinn Ögmundur Kristinsson og miðjumaðurinn Arnór Smárason spiluðu líka allan leikinn.

Hammarby hækkaði sig um eitt sæti með þessum sigri og er nú aðeins einu stigi á eftir Elfsborg sem er þó tveimur sætum ofar í sjöunda sæti sænsku deildarinnar.

Daninn Bjørn Paulsen skoraði bæði mörk Hammarby í leiknum þar fyrra á 21. mínútu eftir stoðsendingu frá Birki Má en það síðara á 54. mínútu eftir að Elfsborg hafði jafnað metin á 28. mínútu.

Birkir Már, sem er stundum kallaður „Vindurinn“ fékk gult spjald strax á sjöttu mínútu en lét það ekki á sig fá.

Hammarby hefur verið í vandræðum á útivelli en þetta var hinsvegar þriðji heimasigur liðsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×