Innlent

Sækja um að hefja aftur leit í flaki Minden

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Seabed Constructor var fært til hafnar eftir að Landhelgisgæslan komst að því hvað áhöfnin var að bauka á íslensku hafsvæði.
Seabed Constructor var fært til hafnar eftir að Landhelgisgæslan komst að því hvað áhöfnin var að bauka á íslensku hafsvæði. Vísir/Ernir
Starfsleyfisumsókn frá ónafngreindu fyrirtæki hefur borist Umhverfisstofnun. Hið ónafngreinda fyrirtæki vill hefja vinnu við flak þýska skipsins Minden og fjarlægja úr því verðmæti sem talin eru vera þar. Samkvæmt frétt Fiskifrétta bendir allt til þess að félagið Advanced Marine Services sé að baki umsókninni.

Advanced Marine Services bar ábyrgð á leiðangri skipsins Seabed Constructor í apríl síðastliðnum en skipið var statt hér á landi í þeim tilgangi að bjarga verðmætum úr þýska fraktskipinu Minden, sem sökk innan efnahagslögsögu Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Félagið Advanced Marine Services er skráð á Cayman-eyjum en hefur starfsemi í Bretlandi.

Landhelgisgæslan stefndi Seabed Constructor til hafnar á sínum tíma vegna gruns um að það hefði stundað ólöglegar rannsóknir í íslensku efnahagslögsögunni, um 120 sjómílur suðaustur af landinu. Þá höfðu starfsmenn Landhelgisgæslu orðið þess áskynja að skipið var búið að vera um nokkurra daga skeið á sama punkti, í grennd við Minden.

Umsóknin barst um viku eftir að skipið sigldi á brott

Í skriflegu svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Fiskifrétta kemur fram að starfsleyfisumsóknin barst stofnuninni 27. apríl síðastliðinn, rétt rúmri viku eftir að Seabed Construct sigldi úr höfn. Í umsókninni falast ónafngreint fyrirtæki eftir því að hefja vinnu við flak Minden í þeim tilgangi að sækja þangað verðmætan varning. Umhverfisstofnun gefur hins vegar ekki upp hvort umsóknin sé frá fyrirtækinu Advanced Marine Services. Fiskifréttir segja þó allt benda til þess að svo sé.

Í svari Umhverfisstofnunar segir enn fremur að umsóknin sé í umsagnarferli sem lýkur á morgun, 14. júlí.



Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór.Landhelgisgæslan
Verðmætin mögulega mikils virði

Landhelgisgæslan hætti afskiptum af Seabed Constructor um miðjan apríl síðastliðinn og skipið sigldi um svipað leyti úr efnahagslögsögunni, án þess að taka með sér verðmæti úr flaki Minden. Þá var ljóst að skipið gæti ekki hafið leit að nýju án leyfis Umhverfisstofnunar.

„Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun meta það svo að það sé leyfisskyld framkvæmd að rífa flakið og fara inn í það með tilliti til umhverfissjónarmiða. Í raun og veru vita menn ekkert í dag hvort það séu mengandi efni um borð í flakinu og hvaða efni. Það þarf að skera úr um það í leyfisferlinu,“ sagði Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, í samtal við Vísi þann 15. apríl.

Þá segir í frétt Fiskifrétta að leiga á norsku rannsóknarskipi kosti milljónir króna dag hvern. Því sé ljóst að kostnaðurinn við rannsókn skipsins innan íslenskrar lögsögu í apríl hafi verið gríðarlegur. Þannig þyki líklegt að ef um sama fyrirtæki sé að ræða og í apríl, Advanced Marine Services, séu verðmætin um borð í Minden mikils virði.


Tengdar fréttir

Fór úr lögsögunni án þess að taka með sér verðmæti úr Minden

Landhelgisgæslan hefur hætt afskiptum af fjársjóðsleitarskipinu Seabed Constructor og skipið er farið úr efnahagslögsögunni án þess að taka með sér verðmæti úr flaki þýska skipsins Minden. Óvíst er hvenær það snýr aftur en það getur ekki hafið leit að nýju án leyfis Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×