Innlent

Breyta skipsbrú í heilsárshús með öllum nútíma þægindum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þessa dagana er verið að breyta skipsbrú undir Eyjafjöllunum í heilsárs hús þar sem þriggja manna fjölskylda ætlar að nota sem dvalarstað með öllum nútíma þægindum. Það sem vekur þó mikla athygli á jörðinni eru brjóstahaldarar á girðingu sem konur skilja eftir þegar þær eiga leið um Eyjafjöllin.

Fjölskyldan sem á jörðina Brekkukot undir Eyjafjöllum býr á Selfossi en fer allar helgar og í öllum fríum í sveitina sína. Þau dvelja í hjólhýsi á meðan húsbóndinn gerir upp gömlu skipsbrúna sem verður breytt í heilsárs hús. Þar verður pláss fyrir þrjá með öllum þægindum sem hægt er að hugsa sér. Brúin mun fá nafnið Skarfur VE 128.

„Ég ætla bara að útbúa þetta eins og lítið hjólhýsi, liggur við. Þannig að maður geti verið hérna með aðstöðu,“ segir Þórhallur Birgisson í Brekkukoti. „Við ætlum að geta sofið hérna þrjú, fjölskyldan,“ segir Þórhallur sem kveðst ekki ætla leigja þetta út til ferðamanna.

Þórhallur segir útsýnið ekki geta orðið fallegra. Hann sjái meðal annars til Vestmannaeyja og fjallanna.

Lilja Georgsdóttir í Brekkukoti segist enga þörf hafa fyrir brjóstahaldara. Það sé svo frjálslegt þarna í sveitinni.Skjáskot
Brjóstahaldarar á girðingunni

Það er ekki bara skipið hér á bænum Brekkukoti undir Eyjafjöllum sem vekur athygli, það er ekki síður girðingin á bænum sem er full af brjóstahöldurum.

„Þetta eru fínustu brjóstahaldarar. Ég hef séð Calvin Klein, Victoriu í öllum skálastærðum og litum. Hér er þetta svo frjálslegt í sveitinni að við þurfum ekkert á svona höldurum að halda,“ segir Lilja Georgsdóttir í Brekkukoti.

Brjóstahaldarar í öllum stærðum og gerðum hanga á girðingunni.SkjáskotFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.