Innlent

Andrea Kristín telur að kveikt hafi verið í húsi sínu á Stokkseyri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andrea Kristín segir að kveikt hafi verið í húsinu á meðan hún svaf.
Andrea Kristín segir að kveikt hafi verið í húsinu á meðan hún svaf. Vísir/Stefán
Andrea Kristín Unnarsdóttir, sem dvaldi í húsinu sem brann á Stokkseyri í gær, segist mikið brennd á líkama eftir brunann. Hún telur einnig að kveikt hafi verið í húsinu sem lögregla áætlaði að yrði rifið í dag.

Andrea greindi frá líðan sinni í kjölfar brunans á Facebook-síðu sinni skömmu eftir hádegi í dag. Hún segist hafa hlotið brunasár í eldsvoðanum og að hún muni gangast undir aðgerðir vegna þeirra.

„Ég er á lífi og hvolparnir eru heilir á húfi. Ég er mikið brennd á öxlum, baki og höndum og fyrir liggja aðgerðir í átt að fullum bata,“ skrifar Andrea.

Þegar Vísir náði tali af Andreu Kristínu upp úr hádegi í gær sagðist hún vera á „brunadeild“ á sjúkrahúsi en baðst undan frekara viðtali. 

Telur að um íkveikju sé að ræða

Þá telur Andrea að kveikt hafi verið í húsinu en hún var sofandi þegar eldurinn braust út. Hún lýsir atburðarásinni í smáatriðum á Facebook-síðu sinni og tekur sérstaklega fram að hún telji að um íkveikju hafi verið að ræða.

„Það var kveikt í húsinu mínu meðan ég svaf. Ég vaknaði við hvolpana mína geltandi og hleyp fram. Þá er þrifið í mig og skvett vökva á bakið á mér og ég gat sprottið nógu snögglega á fætur til að grípa í Tank og hlaupa með þau öll út áður en allt var alelda og leggjast í grasið.“

Vísir greindi frá því í dag að enn væri óljóst hver upptök eldsvoðans væru. Rannsókn málsins stendur yfir og hefur tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verið fengin til aðstoðar, að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Suðurlandi.

Aðspurður sagði Þorgrímur Óli að um altjón hafi verið að ræða og að húsið yrði rifið í dag. Hann sagðist ekki geta svarað til um hvort grunur leiki á íkveikju.

Þakkar innileg skilaboð í kjölfar fósturláts

Andrea greinir einnig frá því að hún hafi misst fóstur í ósköpunum.

„Ég missti því miður barnið líka í þessum ósköpum en fyrsta mæðraskoðun átti einmitt að vera í dag, 17. júlí,“ skrifar Andrea.

Þá þakkar hún fyrir hlý og innileg skilaboð sem henni hafa borist í kjölfar áfallsins. Hún vill enn fremur koma á framfæri þakklæti til slökkviliðs Árborgar og sjúkraflutningamanna sem reyndust henni vel við erfiðar aðstæður.

Facebook-færslu Andreu má sjá í heild sinni hér að neðan. Ekki náðist í Andreu við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Eldur í einbýlishúsi á Stokkseyri

Íbúi hússins komst út af sjálfsdáðum og var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Landsspítalann í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×