Fótbolti

Fimm mínútum frá fullkomnun

Tómas Þór Þórðarson í Tilburg skrifar
Íslensku stelpurnar þakka fyrir stuðninginn eftir leikinn í gærkvöldi.
Íslensku stelpurnar þakka fyrir stuðninginn eftir leikinn í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
Þær voru niðurlútar en stoltar stelpurnar okkar þegar þær gengu hringinn og þökkuðu 3.000 íslenskum stuðningsmönnum fyrir sig eftir grátlegt tap á móti Frakklandi, 1-0, í fyrsta leik liðsins á EM 2017 í fótbolta í gærkvöldi. Þær vissu, eins og allir sem horfðu á leikinn, að þær áttu meira skilið út úr leiknum.

Íslenska liðið var fimm mínútum frá því að ná fullkomnum 90 mínútum í varnarleik á móti liðið sem er líklegt til að verða Evrópumeistari. Mark úr vítaspyrnu á 85. mínútu eftir mjög umdeildan dóm ömurlegs dómara leiksins réði úrslitum. Sú ítalska á flautunni, sem hafði enga stjórn á leiknum, hafði ekki kjark í að dæma víti þegar Fanndís Friðriksdóttir var felld í teignum í fyrri hálfleik en hún var fljót að flauta þegar Amandine Henry féll til jarðar.

Úrslitin grátleg en stelpurnar okkar sýndu að þær eru meira en tilbúnar í slaginn með frammistöðunni í Tilburg í gærkvöldi. Þær voru vel undirbúnar og vissu allt um franska liðið. Aðgerðir stórstjarna Frakka komu þeim ekkert á óvart. Ef það vantaði svo einhver gæði upp á að klára tæklingu eða vinna boltann var nóg á tanknum í íslenska hjartanu til ganga frá þeim málum.

Þjálfarinn Freyr Alexandersson og stelpurnar þakka fyrir leikinn. Vísir/Vilhelm
Kjúklingarnir byrjuðu



Freyr Alexandersson gerði hlut sem mátti svo sem alveg búast við af honum fyrir leik. Hann sýndi að hann er óhræddur við að gera breytingar og treystir þeim leikmönnum sem hann valdi í hópinn með því að hafa þrjá EM-nýliða í byrjunarliðinu.

Agla María Albertsdóttir, fædd 1999, Ingibjörg Sigurðardóttir, fædd 1997 og Sigríður Lára Garðarsdóttir, fædd 1994, byrjuðu allar sinn fyrsta EM-eik en saman eiga þær nú 17 landsleiki.

Allar fylgdu þær frumkvæði þjálfarans og voru óhræddar. Ingibjörg spilaði frábærlega í vörninni ásamt Sif Atladóttur sem var frábær í hjarta varnarinnar sem og Glódís Perla Viggósdóttir. Sigríður Lára spilaði á miðjunni eins og hún hefði aldrei gert neitt áður og stimplaði sig snemma inn með einni Sísí-tæklingu. Hún var líka sallaróleg á boltann og sýndi ótrúlega reynslu í alþjóðabolta þrátt fyrir að búa í raun ekki yfir henni.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir tala við sína nánustu í stúkunni eftir leikinn,Vísir/Vilhelm
Góð fyrirheit



Ef það er eitthvað sem ekki þarf að hafa áhyggjur af er það hvernig stelpurnar taka þessu tapi. Það hefði verið auðvelt fyrir þær að gleyma hausnum í Leifsstöð og vera bara þakklátar fyrir áhuga þjóðarinnar. En þær vilja bara svo miklu meira og sýndu í gærkvöldi að þær geta staðið í þeim bestu og rúmlega það. Franska liðið komst varla í alvöru færi í leiknum.

Það var vafalítið erfitt fyrir stelpurnar að leggjast á koddann í nótt en nú er þetta búið. Fyrir stafni eru aðrar 180 mínútur sem ráða úrslitunum í þessum riðli. Nú er bara að taka þessa frammistöðu með sér í næsta leik á móti Sviss og ná í úrslitin sem þær voru sviknar um í gærkvöldi þar.

Katrín Ásbjörnsdóttir setur pressu á franska leikmann í leiknum.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Sif: Ég trúði því ekki að hún væri að dæma víti

Sif Atladóttir átti frábæran leik í miðri vörn íslenska liðsins og var að vonum svekkt eftir að Frakkarnir náðu að tryggja sér sigur úr ódýrri vítaspyrnu í lokin. Sif tók undir það að henni liði eins og hún hafi verið rænd í þessum leik.

Agla María: Allir með fókusinn á næsta leik

Agla María Albertsdóttir var ein af þremur nýliðum í íslenska landsliðinu sem byrjaði leikinn gegn Frökkum í kvöld. Ísland tapaði 1-0 í þessum fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×