Fótbolti

Freyr: Finn til með leikmönnunum sem lögðu allt í þetta

Freyr ásamt leikmönnum þakkar fyrir stuðninginn að leikslokum.
Freyr ásamt leikmönnum þakkar fyrir stuðninginn að leikslokum. Vísir/Getty
„Fyrst og fremst er ég ótrúlega stoltur, bæði af stelpunum mínum og teyminu hvernig leikurinn var lagður upp og spilaðist svo. Það er efst í huga en það eru aðrar tilfinningar gagnvart dómgæslunni,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska landsliðsins, í samtali við Tómas Þór Þórðarson, blaðamann Vísis í Hollandi, eftir 0-1 tap gegn Frakklandi í kvöld.

„Ef þú ætlar að dæma víti á svona hluti þá skaltu gjöra svo vel að dæma tuttugu víti í leik. Það er ömurlegt þegar dómarar taka svona stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á úrslit leiksins og ég finn til með leikmönnunum sem lögðu allt í þetta.“

Freyr hrósaði baráttuandanum.

„Við settum okkur það sem markmið að skilja allt eftir út á vellinum og gera fólkið heima stolt og það gerðum við fannst mér. Frammistaðan í varnarleiknum var nánast gallalaus og sóknarlega fengum við þessi nokkru færi sem við ætluðum að fá sem er auðvitað svekkjandi að nýta ekki betur.“

Sjá einnig:Umfjöllun: Frakkland - Ísland 1-0 | Frábær frammistaða í grátlegu tapi

Jafntefli hefðu verið frábær úrslit fyrir Ísland.

„Við vissum að stig yrði frábær uppskera gegn þessu frábæra liði en við lokuðum vel á þær. Við leyfðum þeim að taka langskot þar sem við erum með frábæran markmann, tölfræðilega er það að vinna með okkur. Eina sem ég get sett út á varnarlega er að við hefðum mátt pressa oft betur ofar á vellinum,“ sagði Freyr og bætti við:

„Sóknarleikurinn gat verið betri og mun vera betri gegn Sviss á laugardaginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×