Fótbolti

Freyr í 1á1: Kitlar að koma Íslandi á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frey Alexanderssyni dreymir um að koma íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta á HM í Frakklandi 2019.

Freyr var gestur Guðmundar Benediktssonar í þættinum 1á1 á Stöð 2 Sport í gær. Þar spurði Gummi Frey m.a. hvað tæki við hjá honum eftir EM í Hollandi sem hefst sextánda þessa mánaðar.

„Ég er með samning við Knattspyrnusambandið út næstu undankeppni. Það kitlar mig mikið að klára þá undankeppni og reyna að koma Íslandi á HM,“ sagði Freyr sem myndi þá hætta með íslenska liðið eftir HM, ef það kæmist þangað.

„Það væri frábært að enda ferilinn sem landsliðsþjálfari á HM. Ef ég tek þá ákvörðun hætti ég eftir HM, sama þótt við yrðum heimsmeistarar. Þá er minn tími bara kominn.“

Freyr ætlar þó ekki halda áfram eftir EM ef hann finnur að samstarfið er ekki að ganga lengur.

„Ég er alveg jarðtengdur. Ef við förum inn á mótið og ég finn að mér líður ekki vel með að halda áfram og sambandið vill ekki hafa mig áfram, þá er ég ekki það stoltur að ég ætli að sitja hér á samningi í tvö ár í viðbót og gera allt vitlaust úr leiðindum. Þá myndi ég stoppa,“ sagði Freyr.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×