Enski boltinn

Frank de Boer að taka við Crystal Palace

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frank de Boer er að mæta í ensku úrvalsdeildina.
Frank de Boer er að mæta í ensku úrvalsdeildina.
Frank de Boer, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, verður næsti knattspyrnustjóri Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni en honum hefur verið boðið starfið og eru samningaviðræður langt komnar. BBC greinir frá.

De Boer var fyrsti maður á blaði hjá stjórnarformanninum Steve Parish og er honum að verða að ósk sinni. Hollendingurinn tekur við af Stóra Sam Allardyce sem bjargaði liðinu frá falli á síðustu leiktíð en hætti svo í þjálfun.

De Boer hefur verið atvinnulaus síðan í nóvember á síðasta ári þegar hann var rekinn frá Inter á Ítalíu eftir aðeins 85 daga í starfi.

Hann var áður þjálfari Ajax í hollensku úrvalsdeildinni og vann deildina þar fjórum sinnum í röð frá 2011-2015 en Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður Íslands, var hluti af því sigursæla liði.

Hollendingurinn lét af störfum hjá Ajax degi eftir að missa af titlinum til PSV Eindhoven á lokadegi deildarinnar 2016 en hann er sagður hafa heillað stjórnarmenn Palace með fróðleik sínum um félagið og hugmyndafræði sinni í fótboltanum.

Þá er því haldið fram að auðmýkt hans á fundum með forráðamönnum Palace hafi verið gríðarleg, sérstaklega í ljósi alls þess sem hann afrekaði sem leikmaður. Þetta allt saman heillaði Palace-menn upp úr skónum.

Frank de Boer vann 16 stóra titla á glæstum ferli sem leikmaður með Ajax, Barcelona og Al Rayyan í Katar. Hann hóf þjálfaraferilinn í akademíu Ajax, varð svo aðstoðarþjálfari hollenska landsliðsins áður en hann tók við aðalliði Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×