Fótbolti

Gylfi um Hörð Björgvin: Var frábær

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi í baráttunni í kvöld.
Gylfi í baráttunni í kvöld. vísir/epa
Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður Íslands, var virkilega ánægður með sigurinn gegn Króatíu í kvöld. Gylfi gladdist fyrir hönd Harðar Björgvins sem skoraði sigurmarkið.

„Þetta var frábært. Góð úrslit, góð frammistaða og við erum komnir í fínustu mál í riðlinum,“ sagði Gylfi í samtali við íþróttadeild 365.

„Ég held að það hafi verið viljinn sem hafi unnið þennan leik. Varnarleikurinn var líka frábær og það var mikil vinnusemi í liðinu. Við vorum tilbúnir að gera þetta óþægilegt fyrir þá frá fyrstu mínútu.“

„Við pressuðum á þá í 90 mínútur og við vorum óheppnir að þetta var ekki að detta fyrir okkur í fyrirgjöfunum og innköstunum. Við héldum áfram og mjög sætt að skora í lokin.“

„Nei, einhvern veginn hafði ég aldrei trú á því að þeir myndu skora fyrsta markið í leiknum. Við vorum að fá boltann inn í boxið, en þetta datt aldrei fyrir okkur.“

„Við gáfumst ekkert upp og við fengum gott færi þegar Jói skallaði hann og hann varði í horn, en við náðum þessu á seiglunni.“

„Ég reyni nú alltaf að gera mitt besta fyrir liðið. Þetta var aðallega gert til þess að stoppa sóknaruppbygginguna á miðjunni. Þeir eru með Modric og fleiri, en auðvitað þegar við erum komnir fram þá erum við með tvo sóknarmenn.“

Gylfi var spurður út í frammistöðu Harðar Björgvins Magnússonar, hetjunnar í kvöld.

„Hann var mjög góður. Ég sagði við hann að eftir einhverjar tíu mínútur þá byrjaði hann að spila sinn leik og var frábær. Vann skallana og tæklingarnar sem hann átti að vinna.“

„Síðan í seinni hálfleik var hann frábær og skoraði stórglæsilegt skallamark sem var líka mikilvægt fyrir okkur. Maður er ánægður fyrir hans hönd,“ en er sigurinn sá stærsti í sögu Íslands á Laugardalsvelli?

„Ég held það. Allavega ofarlega með Hollandsleiknum, en þetta eru bara þrjú stig þrátt fyrir að þetta sé frábær sigur. Góð frammistaða hjá liðinu, en við þurfum að passa að þessi úrslit skemmist ekki með lélegri frammistöðu gegn Finnlandi.“


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: „Hörður Björgvin axlaði ábyrgð“

Leik Íslands og Króatíu var að ljúka rétt í þessu en Ísland sigraði 1-0. Hörður Björgvin tryggði okkur sigurinn á 90 mínútu. Hér má sjá viðbrögðin á Twitter yfir leiknum en Emil og Hörður voru vinsælir.

Heimir: Þetta var svo asnalegt mark

Heimir Hallgrímsson kom brosandi til móts við blaðamenn á fundi eftir 1-0 sigurinn í Laugardalnum í dag. Hörður Björgvin Magnússon skoraði sigurmarkið undir lok venjulegs leiktíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×