Innlent

Bjargvættur fær ekki bætur eftir að hafa slasast við að draga mann úr brennandi bíl

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Andartakið skömmu fyrir slysið.
Andartakið skömmu fyrir slysið.
Bjargvættur á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu bifreiðar eftir að hafa slasast við að draga ökumanninn úr bifreiðinni. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Úrskurðir nefndarinnar frá síðasta ári voru nýlega birtir á heimasíðu hennar

Málsatvik voru þau að þann 24. nóvember 2015 varð harður árekstur í Ljósavatnsskarði. Sagt var frá honum á sínum tíma og myndband birt af honum. Eftir áreksturinn kviknaði í annarri bifreiðinni.

Mikil mildi þykir að enginn hafi týnt lífi í árekstrinum. Það má meðal annars rekja til þess að ökumaður sem kom að slysinu brást við og dró slasaðan ökumann úr bifreiðinni sem kviknaði í. Við þá björgun kippti ökumaður brennandi bifreiðarinnar í hönd hans með þeim afleiðingum að bjargvætturinn slasaðist á hægri öxl.

Bjargvætturinn heitir Sæmundur Bjarnason en sonur hans tjáði sig um málið á Facebook skömmu eftir slysið. 

„Eftir slysið kom upp eldur í öðrum bílnum en ökumaðurinn var illa slasaður og gat ekki komist frá bílnum af sjálfsdáðum og sem betur fer var pabbi kominn á þeim tíma og gat dregið manninn frá áður en bíllinn varð alelda,“ segir Sæmundur Bjarni og lýsir gangi mála mínúturnar eftir slysið.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að tjón mannsins sé að rekja til þessa kipps ökumannsins en ekki notkunar, bilunar eða galla í bifreiðinni. Af þeim sökum er ekki ástæða til þess að tjón hans sé bætt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar. Því fær hann ekki bætur. 

Myndband af árekstrinum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×