Innlent

Komst lífs af og birti myndband af árekstrinum í Ljósavatnsskarði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ótrúlegt má telja að allir hafi komist lífs af.
Ótrúlegt má telja að allir hafi komist lífs af. Skjáskot úr myndbandinu.
Harður árekstur varð í Ljósavatnsskarði eftir hádegi þann 24. nóvember síðastliðinn þar sem tveir fólksbílar skullu saman. RÚV greindi á sínum tíma frá því að myndband hefði náðst af árekstrinum og hefur ferðamaður, annar tveggja í öðrum fólksbílnum, nú birt myndband sem tekið var upp í aðdraganda árekstursins. Mikil mildi má þykja að allir hafi komist lífs af en annar ferðamannanna hefur þó gengist undir tvær stórar aðgerðir. Hann er þó ekki í lífshættu.

Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan og ástæða er til að vara við, sést hvernig ökumaður hins bílsins missir stjórn á honum á ísilögðum veginum. Samkvæmt frétt RÚV komst hann út af sjálfsdáðum en skömmu síðar kviknaði í bílnum.  Maðurinn slasaðist mjög alvarlega, var í öndunarvél í fjóra sólarhringa og gekkst undir stóra aðgerð. Hann er nýkominn úr öndunarvél, er ekki í lífshættu en á langa baráttu framundan.

Báðir bílarnir eru gjörónýtir en þeir fóru báðir fram af fjögurra til fimm metra háum kanti.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er annar ferðamannanna svo gott sem útskrifaður af sjúkrahúsinu. Hinn mun liggja inni eitthvað lengur eftir að hafa gengist undir tvær stórar aðgerðir. Hann er þó ekki í lífshættu.

„Takk fyrir ástina og stuðninginn hvaðanæva úr heiminum,“ skrifar annar farþeginn við myndbandið sem birt var á YouTube. 

„Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar hafa sagt okkur að við séum stálheppin að hafa sloppið lifandi. Maður getur ekki gefist upp þegar svo margir leggjast á eitt að koma þér til bjargar.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.