Erlent

Evrópuþingmenn stinga fé til skrifstofuhalds í eigin vasa

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nigel Farage, þingmaður á Evrópuþinginu, er sakaður um að hafa stungið sem nemur 2,3 milljónum króna í eigin vasa af fé sem átti að fara til heimaskrifstofu.
Nigel Farage, þingmaður á Evrópuþinginu, er sakaður um að hafa stungið sem nemur 2,3 milljónum króna í eigin vasa af fé sem átti að fara til heimaskrifstofu. vísir/EPA
Hver þingmaður á Evrópuþinginu fær sem samsvarar um 483 þúsund íslenskum krónum skattfrjálst á mánuði til að halda skrifstofu í heimalandi sínu. Hópur rannsóknarblaðamanna frá Evrópusambandslöndunum hefur nú sýnt fram á að margar þessara heimaskrifstofa eru í rauninni ekki til. Um sé að ræða svokallaðar draugaskrifstofur.

Fénu á að verja til almennra útgjalda eins og til dæmis símreikninga, kostnaðar vegna tölvubúnaðar og síma auk annars sem þingmenn á Evrópuþinginu þurfa í daglegu starfi sínu, að því er greint er frá í Sænska dagblaðinu.

Stór hópur þingmannanna, sem eru 751 talsins, greiðir sínum eigin stjórnmálaflokki peningana, sem er klárt brot á reglunum, eða stingur þeim í vasann. Í sumum tilfellum voru heimilisföng skrifstofanna, sem stjórnmálamennirnir gáfu upp þegar rannsóknarblaðamennirnir leituðu svara, ekki til.

Þingmenn á Evrópuþinginu hafa sent féð sem á að fara til skrifstofuhalds til eiginkvenna sinna, barna og annarra ættingja í heimalöndum sínum. Starfsmenn Evrópuþingsins, sem ekki vilja koma fram undir nafni, segja að margir þingmannanna líti á féð til skrifstofuhalds sem bónusgreiðslu.

Marine Le Pen, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Frakklandi, er sökuð um að hafa styrkt flokk sinn, National Front, með fénu.

Breski stjórnmálamaðurinn Nigel Farage var nýlega sakaður um að hafa stungið sem nemur um 2,3 milljónum íslenskra króna af heimaskrifstofufénu í eigin vasa. Hann svaraði, og það réttilega, að honum væri ekki skylt að gera grein fyrir útgjöldunum. Evrópuþingið krefst ekki kvittana fyrir þeim.

Sumir sænskir þingmenn á Evrópuþinginu kváðust aðspurðir hafa notað fé til kaupa á kaffi og ávöxtum fyrir skrifstofuna, til ferða og gistingar auk annars. Aðeins þingmenn umhverfisflokksins hafa það sem stefnu að framvísa kvittunum og skila fé sem ekki hefur verið notað.

Krafist hefur verið meira gagn­sæis en þingmenn hafa verið andvígir því. Síðast nú í apríl höfnuðu þingmenn því í atkvæðagreiðslu að þeir gerðu grein fyrir útgjöldunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×