Innlent

Forstjóri HB Granda: Fólk var dapurt og leitt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmur, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmur, forstjóri HB Granda. Vísir/Anton Brink
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir vonir standa til þess að hægt verði að bjóða öllum þeim 86 starfsmönnum sem sagt verður upp störfum hjá fyrirtækinu í mánuðinum áframhaldandi vinnu. Sú vinna verður þó í Reykjavík í langflestum tilvikum.

„Við gerum okkur vonir um að geta boðið þeim öllum starf áfram hjá félaginu og dótturfélögum þess,“ sagði Vilhjálmur í samtali við blaðamann Vísis á Akranesi í dag.

Vilhjálmur ræddi við blaðamann að loknum fundi með Verkalýðsfélagi Akraness og trúnaðarmönnum áður en hann las upp yfirlýsingu HB Granda á fundi með starfsmönnum klukkan 15.

„Það kom ekki meira fram þannig en að við fórum yfir yfirlýsingu sem við vorum að gefa út um að við værum að hætta vinnslu bolfisks á Akranesi hér 1. september, og munum segja upp starfsfólki fyrir næstu mánaðarmót,“ segir Vilhjálmur.

Koma verði í ljós hvernig framhaldið verði.

„Það á aldeilis eftir að reyna á að. Bróðurpartur þessara starfa sem fólkinu býðst er í Reykjavík. Hún er náttúrulega misjöfn aðstaða fólks til að geta þegið það. Þetta er það sem við getum boðið og getum gert. Það verður bara að koma í ljós hversu mörgum og hvort það gagnist öllum eða ekki.“

Var hiti í starfsmönnum á fundinum?

„Ég get ekki sagt að það hafi verið hiti í fólki, fólk var dapurt og leitt,“ sagði Vilhjálmur. Ekki hafi verið svo að fólk hafi gengið út af fundinum í reiði eins og blaðamaður taldi sig verða vitni að.

„Það var nú ekki fyrr en þetta var nánast búið,“ sagði Vilhjálmur. HB Grandi hafi fundð með Akurnesingum síðast í gær og í framhaldinu var boðað til fundarins í dag.

„Það var komin mikil óþolinmæði í fólk vegna óvissu,“ segir Vilhjálmur og bætir við: 

„Við munum bjóða öllum vinnu en langflestum í Reykjavík. Það verður að koma í ljós hversu margir geta þegið það boð.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×