Erlent

Nágrannar tóku ekki eftir neinu óeðlilegu í samskiptum sínum við árásarmanninn í París

Atli Ísleifsson skrifar
Miði fannst nálægt líki mannsins þar sem hann lýsir yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS.
Miði fannst nálægt líki mannsins þar sem hann lýsir yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS. Vísir/AFP
Fjölmargir fjölmiðlar segja nú að maðurinn sem skaut lögreglumann til bana og særði þrjá til viðbótar í París hafi verið Karim Cheurfi, 39 ára franskur ríkisborgari. Hann var skotinn til bana af lögreglu þegar hann flúði af vettvangi.

AP hefur fengið aðgang að gögnum lögreglu þar sem heimilsfang árásarmannsins kemur fram, en lögregla gerði húsleit á heimili hans í úthverfinu Chelles, austur af París í nótt.

Franskir fjölmiðlar segja að Cheurfi hafi áður setið í fangelsi í tíu ár fyrir að hafa reynt að bana tveimur lögreglumönnum árið 2003.

Miði fannst nálægt líki mannsins þar sem hann lýsir yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS. Samtökin hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en lögregla telur að maðurinn hafi verið einn að verki.

Í frétt AP kemur fram að Cheurfi hafi síðast í febrúar verið handtekinn í hryðjuverkarannsókn yfirvalda en síðar verið sleppt vegna skorts á sönnunargögnum.

Nágrannar mannsins segja að þeir hafi aldrei tekið eftir einhverju óeðlilegu í samskiptum sínum við manninn sem grunaður er um árásina, en lögregla hefur ekki staðfest nafn árásarmannsins.

Cheurfi bjó ásamt móður sinni í íbúðinni í Chelles, en hverfið sem um ræður er lýst sem rólegu millistéttarhverfi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.