Innlent

Yngsti þingmaður sögunnar tekur sæti á Alþingi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Halldór Janusson.
Bjarni Halldór Janusson. vísir/stefán
Bjarni Halldór Janusson, varaþingmaður Viðreisnar, mun í dag taka sæti á Alþingi. Hann er fæddur 4. desember 1995 og er því 21 árs og 141 daga gamall. Þar með verður hann yngsti þingmaður sögunnar en Víðir Smári Petersen var áður yngsti þingmaðurinn sem tekið hafði sæti á þingi. Hann var 21 árs og 328 daga gamall þegar hann tók sæti á þingi í september 2010.

Bjarni skipaði 4. sætið á lista Viðreisnar fyrir þingkosningarnar í október. Hann kemur inn fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá þingflokki Viðreisnar er Bjarni Halldór stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann stundar nú nám í stjórnmálafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og situr í Stúdentaráði HÍ.

Bjarni er einn af stofnendum Viðreisnar og sat í fyrstu stjórn flokksins. Hann er jafnframt einn af stofnendum ungliðahreyfingar flokksins og er fyrsti formaður hennar.

Auk Bjarna taka þeir Ómar Ásbjörn Óskarsson og Jóhannes Albert Kristbjörnsson sæti á þingi sem varaþingmenn Viðreisnar. Ómar kemur inn fyrir Jón Steindór Valdimarsson og Jóhannes fyrir Jónu Sólveigu Elínardóttur.

„Ómar lauk B.A.-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2009 og M.Sc.-prófi í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík 2009. Ómar lauk einnig M.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Ómar var framkvæmdastjóri Framadaga 2007 og eftir nám hefur hann starfað sem skrifstofustjóri hjá Járnsmíði Sf. Ómar sat í Fjölskylduráði Hafnarfjarðar frá 2014-2016 og í Umhverfis- og framkvæmdaráði frá 2016-2017.  Í dag rekur hann innflutningsfyrirtæki með byggingavörur.

Jóhannes Albert Kristbjörnsson skipaði 2. sætið á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi og er því fyrsti varamaður. Hann er fæddur árið 1965. Jóhannes var lögreglumaður og útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins árið 1993; hann útskrifaðist síðar með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2013. Hann stofnaði Lögmannsstofu Reykjaness árið 2013 þar sem hann starfar nú,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×