Innlent

Rúnar Marvinsson dró fram pönnuna fyrir ítalskan matgæðing

Kristján Már Unnarsson skrifar
Meistarakokkurinn Rúnar Marvinsson tók fram pottinn og pönnuna á ný þegar hann var fenginn til að elda saltfisk fyrir ítalskan matarblaðamann í Ólafsvík á dögunum. Fjallað var um málið í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Ítalski blaðamaðurinn Giovanni Angelucci var búinn að kynna sér saltfiskverkun í KG á Rifi og Valafelli í Ólafsvík með verkefnisstjóra Íslandsstofu, Kristni Björnssyni, þegar við hittum þá fyrir utan heimahús í Ólafsvík. Þeir voru á leið í veislu til eigenda Valafells, Kristínar Vigfúsdóttur og Erlings Jónassonar.

Í eldhúsinu var enginn annar en Rúnar Marvinsson, sem matargagnrýnandinn Jónas Kristjánsson kallar ókrýndan konung íslenskrar sjávarréttamatreiðslu. Á veitingastaðnum „Við Tjörnina“ og áður á Hótel Búðum var Rúnar brautryðjandi í að kynna fjölbreyttari nýtingu sjávarfangs. Rúnar minnist þess að það þýddi ekkert að bjóða Íslendingum þorsk á matseðlinum á Búðum árið 1980. 

„En þetta hefur breyst mjög mikið. Nú eru allir með þorsk, - og allsstaðar þorskhnakki. Það er eins og það sé ekkert á þorskinum nema hnakki,“ segir Rúnar og hlær. 

Og það er einmitt saltaður þorskhnakki sem hinn ítalski og aðrir gestir fá í aðalrétt en Íslandsstofa bauð blaðamanninum til landsins til að kynna íslenska saltfiskinn.

Kristinn Björnsson, verkefnisstjóri Íslandsstofu, í saltfiskveislu á heimili eigenda Valafells í Ólafsvík.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
„Hann er svona gastronomi-blaðamaður og er á ferð um landið, - er á Snæfellsnesi í dag, - og fær að kynnast þar fiskverkun og síðan fær hann að njóta saltfisks hjá Kristínu í Valafelli,“ segir Kristinn Björnsson, en hann vinnur hjá Íslandsstofu við að kynna þorskafurðir í Suður Evrópu.

Umfjöllun ítalska blaðamannsins um saltfiskinn má sjá hér.

Þegar við spyrjum hvar Rúnar Marvinsson sé í dag þá segist hann sestur í helgan stein,- vera kominn fram yfir síðasta söludag.

„Núna er ég bara á Hótel Ríkið, ég fæ 180 þúsund á mánuði, held ég, kannski komið í 200 þúsund. Ég þarf ekki að kvarta.

Er búsettur á Hellissandi núna. Ég kann bara mjög vel við mig hérna á Nesinu allsstaðar. Þetta er eðalfólk hér allsstaðar sem ég hef kynnst.“ 

Við heyrum meira af Rúnari Marvinssyni og saltfiskréttum í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld, á mánudag. Hér má sjá myndbrot úr þættinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×