Innlent

Vopnað rán í Kauptúni: Frestuðu yfirheyrslum þar sem hinir grunuðu voru undir áhrifum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Kauptúni þar sem ránið átti sér stað.
Frá Kauptúni þar sem ránið átti sér stað. Vísir/Jóhann K.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu náði aðeins að yfirheyra einn af mönnunum fjórum sem grunaðir eru um aðild að vopnuðu ráni í Kauptúni í Garðabæ síðdegis í gær þar sem þeir voru allir undir áhrifum og þar af leiðandi ekki í ástandi til þess að sæta yfirheyrslum. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með rannsókn málsins.

Yfirheyrslur byrjuðu í gærkvöldi en lögreglan mat það síðan sem svo að betra væri að bíða með áframhaldandi yfirheyrslur til morguns vegna ástands mannanna. Þær munu því halda áfram í dag og verður í framhaldinu tekin ákvörðun um það hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir mönnunum. Þeir voru allir handteknir í íbúð við Laugarnesveg rétt fyrir klukkan 19 í gærkvöldi og hafa allir komið við sögu lögreglu áður.

Í íbúðinni fundust fíkniefni og skotvopn en aðspurður segir Grímur að ekki sé vitað hversu mikið magn af fíkniefnum er um að ræða né hvað það er þar sem enn á eftir að greina það og vigta. Þetta sé lítilræði af hvítu dufti sem sé þá væntanlega annað hvort amfetamín eða kókaín.  

Ekki er vitað hvort að vopnin sem fundust í íbúðinni hafi verið notuð við ránið en Grímur segir það einn hluta rannsóknarinnar að upplýsa hvaða vopn voru notuð og hvernig þeim var beitt.  

Mennirnir eru grunaðir um að hafa rænt mann á bílaplaninu við Costco en að sögn Gríms þekkjast hinir grunuðu og maðurinn. Hann vill ekki gefa upp hverju var rænt af manninum en segir það vera smáræði.


Tengdar fréttir

Talinn hafa hótað manninum með byssu

Lögreglan og sérsveit ríkislögreglustjóra leita nú tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa framið vopnað rán í Kauptúni í Garðabæ síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×