Enski boltinn

Berahino segist hafa verið byrlað ólyfjan og hann hatar West Brom

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Saido Berahino yfirgaf WBA og gekk í raðir Stoke.
Saido Berahino yfirgaf WBA og gekk í raðir Stoke. vísir/getty
Saido Berahino, framherji Stoke í ensku úrvalsdeildinni, segir ástæðu þess að hann var úrskurðaður í átta vikna langt bann fyrir lyfjamisnotkun fyrr á þessari leiktíð vera að honum var byrjað ólyfjan á skemmtistað.

Berahino spilaði ekki fyrir uppeldisfélag sitt West Bromwich Albion frá september og fram í janúar þegar hann var svo á endanum seldur til Stoke fyrir tólf milljónir punda.

„Það er erfitt að sætta sig við leikbann fyrir eitthvað sem maður gerði ekki,“ segir þessi 23 ára gamli leikmaður í viðtali við BBC en flestir héldu að hann hefði verið að reykja gras. Þannig voru fyrstu fréttir.

Hann segir magnið sem fannst í lyfsýni hans vera mjög lítið sem sannar að hann ætlaði sér aldrei að neita lyfjanna.

„Maður fer út á lífið og veit í raun ekkert hverjir eru í kringum mann. Það er fólk þarna úti sem vill skemma fyrir þér. Vissulega var ég á skemmtistað og tek ábyrgðaleysið á mig. En eftir þetta fór allt niður á við. Ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju einhver myndi gera mér þetta,“ segir Berahino.

Framherjinn ungi er svakalega reiður út í sitt fyrrverandi félag, WBA, og vandar knattspyrnustjóranum Tony Pulis ekki kveðjurnar.

„Enginn hjá félaginu kom mér til varnar. Það var mjög erfitt að fá ekki að gera það sem maður elskar. Það var erfiðast,“ segir Berahino sem mátti ekki æfa með liðinu í fjóra mánuði en allan tímann sagði Pulis að hann væri ekki í leikformi.

Berahino einfaldlega hatar West Brom, félagið sem hann byrjaði að spila með þegar hann var aðeins ellefu ára gamall.

„Ég var niðurdreginn. Hvern einasta morgunn mætti ég á æfingasvæðið en vildi ekki vera þarna. Það er erfitt að fara úr því að elska einhvern stað í það að hata hann. Hatur er sterkt orð en mig langaði alls ekki að vera þarna lengur,“ segir Saido Berahino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×