Enski boltinn

Benítez vill fá Gylfa Þór í sumar en þarf að bjóða meira en 15 milljónir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er mikils virði.
Gylfi Þór Sigurðsson er mikils virði. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins, er sagður vera á teikniborðinu hjá Rafael Benítez, knattspyrnustjóra Newcastle, en frá þessu greinir breska blaðið The Sun í morgun.

Newcastle er á leið aftur í ensku úrvalsdeildina en það er á toppnum í B-deildinni með 78 stig, sjö stigum meira en Huddersfield sem er í þriðja sæti þegar átta umferðir eru eftir.

Benítez er sagður ætla að setja það í forgang að kaupa Gylfa Þór í sumar en hann ætlar að bjóða fimmtán milljónir punda í íslenska miðjumanninn. Það er alltof lítið samkvæmt fréttum um Hafnfirðinginn síðustu mánuði.

Everton gerði 25 milljóna punda tilboð í Gylfa síðasta sumar og sagt var að Southampton hafi boðið yfir 30 milljónir í janúar. Everton og West Ham eru enn þá á eftir Gylfa og miðað við áhugann á leikmanninn er ljóst að fimmtán milljónir punda duga aldrei til að kaupa hann.

Gylfi Þór er búinn að skora átta mörk fyrir Swansea í vetur en leggja upp önnur ellefu. Hann er stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni og hefur í deildina komið að 19 af 36 mörkum Swansea eða ríflega helmingi marka liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×