Enski boltinn

Eigendur Liverpool gefa grænt ljós á að sækja Brassana með einkaþotu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brassarnir koma með fyrstu vél.
Brassarnir koma með fyrstu vél. vísir/getty
Liverpool tekur engar áhættur með undirbúninginn fyrir stórleikinn á móti Everton um helgina en enska úrvalsdeildin fer af stað aftur með látum þegar Bítlaborgarslagurinn verður flautaður á klukkan 12.30 á laugardaginn.

Liverpool þarf á sigri að halda í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti en liðið er í fjórða sæti með 56 stig, fjórum stigum meira en Manchester United sem á tvo leiki til góða.

Til að tryggja eins góðan undirbúning Brasilíumannanna tveggja Phillipe Coutinho og Roberto Firmino og mögulegt er verða þeir sóttir á einkaþotu til Sau Paulo þar sem brasilíska landsliðið mætir Paragvæ í leik í undankeppni HM 2018 aðra nótt.

Jürgen Klopp vill auðvitað að framherjarnir tveir sem eru samtals búnir að skora fimmtán mörk og gefa tólf stoðsendingar í deildinni verði komnir aftur til Liverpool sem allra fyrst og fái góða hvíld fyrir leikinn.

Fenway Sports Group, eigendur Liverpool, eru búnir að gefa grænt ljós á að sækja Brassana tvo sem eiga leik klukkan korter í tvö eftir miðnætti aðfaranótt fimmtudags. Þeir fara beint upp í vél eftir leik og ná því tveimur dögum í Liverpool áður en kemur að leiknum mikilvæga á móti Everton.

Liverpool hefur áður leigt einkaþotu í samstarfi við önnur félög eins og Paris Saint-Germain og Manchester City til að fljúga Brasilíumönnum heim úr landsliðsverkefnum en að þessu sinni sjá þeir um þetta sjálfir. Liverpool flaug Sadio Mané einnig heim með einkaþotu eftir þátttöku hans í Afríkukeppninni í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×