Innlent

Rúmlega þrjátíu fangelsisdómar fyrndust í fyrra

Heimir Már Pétursson skrifar
Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. vísir/anton
Á síðasta ári fyrndust þrjátíu og fjórir fangelsisdómar þar sem of langur tími var liðinn frá dómuppkvaðninu þar til afplánun gat hafist. Fangelsismálastjóri vonar að hægt verði að koma í veg fyrir fyrningu dóma á næstu misserum með fjölgun refsiúrræða, en önnur úrræði en fangelsun hafi gefið góða raun.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að 550 manns bíði þess í dag að geta hafið afplánun í fangelsum landsins og hefur þeim fjölgað um 25 frá síðasta ári. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þetta eðlilegt miðað við stöðu mála, þar sem tveimur fangelsum, Kvennafangelsinu í Kópavogi og Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, hafi verið lokað í fyrra og hitteðfyrra. Þá hafi nýja fangelsið á Hólmsheiði ekki verið tekið í notun fyrr en í nóvember á síðasta ári.

„Þannig að það tekur tíma að vinda ofan af þessu. Auðvitað eru allir óþreyjufullir að vinna á þessum lista en þetta tekur sinn tíma. Við erum með56 pláss uppi á Hólmsheiði og við þurfum að fylla fangelsið hægt og rólega.Þetta er bara þolinmæðisverk,“ segir Páll.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.Vísir/Anton Brink
Hann voni að hægt verði að fækka á boðunarlistanum með því að fleiri afpláni með samfélagsþjónustu í stað þess að fara á bakvið lás og slá. Þá hafi önnur úrræði eins og rafrænt eftirlit verið aukin sem muni hjálpa til þegar fram líði stundir. En á undanförnum árum hafi færst í aukana að dómar fyrnist vegna skorts á rýmum og öðrum refsiúrræðum.

„Og það er nú það fyrsta sem við ætlum að reyna að koma í veg fyrir eða stoppa nánast alfarið að refsingar fyrnist. Þess vegna leggjum við áherslu á að boða núna inn þá sem eru með refsingu sem er að fyrnast,“ segir Páll. Hann telji að það ætti að takast á næstu misserum.

Páll segir að Alþingi hafi samþykkt ný lög í fyrra þar sem rýmkað var fyrir samfélagsþjónustu, reynslulausn og rafrænu eftirliti með brotafólki í stað fangelsunar. Þá sé búið að þrefalda fjölda í opnum fangelsum og hugsanlega megi gera enn meira þar. Páll telur ekki þörf á fjölgun fangelsisrýma á næstu árum, en þeim hafi fjölgað um 30 með tilkomu Hólmsheiðar.

„Ég legg nú meiri áherslu á að aðbúnaðurinn sé í lagi í því húsnæði sem við höfum. Við erum einmitt að fara í endurbætur á einu húsanna á Litla hrauni. Við munum loka því í þrjá mánuði í sumar,“ segir fangenslismálastjóri.

Vinna þurfi frekar í öðrum úrræðum en innlokun í fangelsum enda hafi reynslan sýnt að þau reynist vel.

„Engin spurning. Við erum með lægsta endurkomutíðni á Norðurlöndunum í samfélagsþjónustu. Samfélagsþjónustan á Norðurlöndunum er hvergi eins mikið notuð og á Íslandi. Við höfum verið að prófa okkur áfram með öklabönd, eða rafrænt eftirlit í lok lengri afplánunar og það er búið að rýmka það líka. Vistun á áfangaheimilum hefur líka verið lengd. Þannig að við erum að berjast á öllum sviðum,“ segir Páll Winkel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×