Málið er til meðferðar í Hæstarétti í dag þar sem ákæruvaldið hefur fjörutíu mínútur til að koma sínum skoðunum á framfæri en verjandi hvors sakbornings þrjátíu mínútur. Ríkissaksóknari fór fram á tólf ára fangelsisdóm yfir Annþóri og Berki í héraði og heldur þeirri kröfu til streitu í Hæstarétti.

Alla jafna eru dómar í Hæstarétti kveðnir upp innan þriggja vikna frá málflutningi og innan fjögurra vikna í héraði. Dómsuppkvaðning í héraði var þó átta vikum eftir aðalmeðferðina svo koma verður í ljós hve langan tíma dómarar í Hæstarétti gefa sér til að kveða upp dóm sinn.
Annþór og Börkur afplána nú sjö og sex ára fangelsisdóma sem féllu haustið 2013 fyrir grófa líkamsárás í janúar 2012. Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.