Innlent

Fjölskipaður héraðsdómur taldi ekki annað hægt en að sýkna Annþór og Börk vegna mikils vafa

Birgir Olgeirsson skrifar
Börkur Birgisson sést hér yfirgefa Héraðsdóm Suðurlands fyrr í vetur.
Börkur Birgisson sést hér yfirgefa Héraðsdóm Suðurlands fyrr í vetur. Vísir

Það mikill vafi lék á sekt Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar að fjölskipaður dómur Héraðsdóms Suðurlands taldi ekki annað hægt en að sýkna þá af ákæru um að hafa valdið áverkum sem leiddu til dauða fangans Sigurðar Hólm Sigurðssonar. Sigurður fannst látinn í fangaklefa sínum á Litla Hrauni í maí árið 2012 og var dómurinn kveðinn upp gegn Annþóri og Berki fyrr í dag.

Báðir neituðu Annþór og Börkur sök og könnuðust hvorugur við að hafa veitt Sigurði áverka. Engin vitni voru leidd fram í málinu sem sögðu þá hafa átt hlut í máli. Upplýst var við aðalmeðferð málsins að eitt vitnanna hefði í fyrstu staðið í þeirri trú að lyf sem hann hafði gefið Sigurði hefði orðið honum að aldurtila.

Sjá dóminn hér. 

9 sekúndna gluggi

Þá sögðu önnur vitni frá því að umrætt vitni hefði boðið mönnum samning eða varning gegn því að bera sakir á Annþór og Börk. Þá taldi dómurinn ekki útilokað að einhver annar en Annþór eða Börkur hefðu geta veitt Sigurði þá áverka sem leiddu til dauða hans. Er þar nefndur til sögunnar í dómnum ónefndur fangi sem dvaldi þrjár sekúndur einn í klefanum með Sigurði. Samtals var hann í níu sekúndur í klefanum með Sigurði og taldi dómurinn það nóg til að ekki væri hægt að útiloka að hann hefði veitt Sigurði þennan áverka. Eftir það var Sigurður einn í klefa með ákærðu í 12 mínútur.

Þá útilokaði dómurinn ekki að fall í klefanum hafi orsakað áverkann.

30 milljónir í málsvarnarlaun 

Embætti ríkissaksóknara fór fram á 12 ára fangelsisdóm yfir þeim Annþór og Berki en það er í skoðun hvort embættið muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Ríkið var dæmt til að greiða málsvarnarkostnað tvímenninganna sem nemur rúmum 30 milljónum króna.

Verjendur þeirra Annþórs og Barkar sögðu við Vísi að lokinni dómsuppsögu að aldrei hefði átt að ákæra í þessu máli.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×