Erlent

Réttur ríkisborgara ESB-ríkja til að dvelja í Bretlandi verði tryggður eftir Brexit

Atli Ísleifsson skrifar
Úr þingsal lávarðadeildar breska þingsins í kvöld.
Úr þingsal lávarðadeildar breska þingsins í kvöld. Vísir/AFP
Breska ríkisstjórnin verður að tryggja rétt ríkisborgara aðildarríkja Evrópusambandsins til að búa í Bretland eftir að landið gengur úr sambandinu.

Meirihluti lávarðadeildar breska þingsins samþykkti þetta í atkvæðagreiðslu nú undir kvöld, en með henni beið ríkisstjórnin lægri hlut í meðferð Brexit-frumvarpsins í breska þinginu. BBC greinir frá.

Neðri deild þingsins hafði þegar samþykkt Brexit-frumvarpið sem myndi heimila breskum stjórnvöldum að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans og þar með formlega hefja útgönguferlið. Erfiðar hefur gengið í efri deild þingsins þar sem Íhaldsflokkurinn er ekki með hreinan meirihluta. 358 þingmenn lávarðadeildarinnar voru breytingartillögunni fylgjandi en 256 andvígir.

Ríkisstjórnin vill meina að hún hafi „ítrekað talað skýrt“ um að réttindi ríkisborgara aðildarríkja ESB verði tryggð eftir útgöngu.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði vonast til að frumvarpið yrði samþykkt fyrir 9. mars þegar leiðtogafundur ESB fer fram. Nú er alls óvíst hvort að það takist.

Frumvarpið og breytingartillagan verður nú aftur lagt fyrir neðri deildina þar sem atkvæði verða greidd á ný. Mögulegt er að tillögu lávarðadeildarinnar verði þar snúið við, en Brexit-frumvarp May nýtur mikils stuðnings í neðri deildinni.

May hefur sagt að breska stjórnin muni virkja 50. greinina fyrir lok þessa mánaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×