Hann spreytti sig sem útherji í amerískum fótbolta þegar Rob Gronkowski, innherji Super Bowl-meistara New England Patriots, kíkti í heimsókn til Katalóníu í vikunni.
Gronk var mættur á 6-1 upprúllun Barcelona gegn Sporting Gijón á Nývangi í gær en hann kíkti einnig á æfingasvæði Börsunga og fékk einkatúr um völlinn.
Gronk og Mascherano fóru að kasta amerískum fótbolta aðeins á milli en eins og sjá má í Myndbandinu hér að neðan sem Mascherano birti sjálfur á Instagram-síðu sinni er Argentínumaðurinn töluvert betri að vinna með fótunum en höndunum.
Mascherano tókst ekki að grípa afskaplega einfalda en nokkuð langa sendingu frá bandaríska innherjanum. Ansi klunnaleg tilþrif hjá Mascherano sem er ekki að fara að hirða starfið af Gronk hjá New England.