Innlent

Sveitarstjórnin fundaði á brúnni yfir Berufjarðará

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá fundi sveitarstjórnarinnar.
Frá fundi sveitarstjórnarinnar. djúpivogur
Langþreyttir Austfirðingar lokuðu þjóðvegi 1 í Berufirði, öðru sinni, nú síðdegis til þess að mótmæla frestun vegaframkvæmda. Sveitarstjórn Djúpavíkurhrepps tók þátt í mótmælunum með því að funda á brúnni yfir Berufjarðará þar sem sveitarstjórnarmenn höfðu komið fyrir borði og stólum.

Sveitarstjórnin samþykkti á fundi sínum að skora á samgönguráðherra og Alþingi að standa við nýsamþykkta samgönguáætlun og efna þannig gefin loforð fyrir kosningar. Ráðherra og þingið þurfi að sameinast um að koma framkvæmd við nýjan veg um botn Berufjarðar í útboð nú þegar.

Berglind Häsler, bóndi á Karlsstöðum, segir að um það bil hundrað manns hafi tekið þátt í mótmælunum í dag. „Við opnuðum veginn aftur um klukkan 19. Það var aðeins minni mæting en síðast, en það var líka nístingskuldi og um 25 vindstig. En það sem stendur upp úr eftir daginn er þessi mikla samstaða og að sjá hvað fólk er einart í þessu,“ segir Berglind í samtali við Vísi.

Hún segist binda vonir við að ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum á morgun að grípa til að gerða, enda séu íbúar orðnir langþreyttir á stórhættulegu ástandinu.

 „Ég held í vonina um að ríkisstjórnin hlusti á þessar gagnrýnisraddir sem hljóma um allt land. Það er allt brjálað og fólki er algjörlega misboðið. Ekki nóg boðið – misboðið. Það er algjört neyðarástand hérna og það er ekki hægt að bjóða íbúum, börnunum þeirra, ferðamönnum og atvinnubílstjórum upp á svona, því þetta er stórhættulegt,“ segir Berglind. Aðspurð segir hún íbúa ætla að halda aðgerðum sínum áfram, muni stjórnvöld ekki bregðast við kröfu þeirra.


Tengdar fréttir

Mótmæli sveitunga munu engu breyta

Samgönguráðherra segist skilja vel gremju fólks vegna niðurskurðar á samgönguáætlun. Um 200 íbúar í Berufjarðarbotni og nærsveitum lokuðu þjóðvegi 1 í tvær klukkustundir í gær með um 60 bílum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.